141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:42]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta mál markar mikil þáttaskil í réttarstöðu trúfélaga annars vegar og lífsskoðunarfélaga hins vegar og er stórt skref í þá átt að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga, skráðra trúfélaga og stuðla að meiri jöfnuði á meðal íbúa landsins gagnvart lögum óháð trúar- eða lífsskoðunum.

Það er nauðsynlegt að árétta að við tókum málið inn á milli 2. og 3. umr. og þessi lög hafa ekki áhrif á tekjulega stöðu þjóðkirkjunnar eins og sumir höfðu áhyggjur af. Nefndin áréttar að sóknargjöld eru ekki framlög greidd úr ríkissjóði heldur félagsgjöld sem íslenska ríkið hefur tekið að sér að innheimta og felur frumvarpið í sér réttarbót sem ekki skerðir sóknargjöld til annarra trúfélaga.

Þá er um að ræða skilgreiningu á lífsskoðunarfélagi sem við skoðuðum sérstaklega og á sér fyrirmynd í norskri löggjöf nema að hér eru slegnir enn fleiri varnaglar þannig að félög sem eru ekki sannarlega lífsskoðunarfélög geta ekki fengið slíka skráningu og þar með með einhverjum hætti misnotað þessa nýju tímamótalöggjöf og þessa mannréttindalöggjöf.