141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

155. mál
[15:54]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er einkar ánægjulegt að greiða atkvæði um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Sú lögfesting hefur bein réttaráhrif hér á landi þar sem að mati allra umsagnaraðila er ótvírætt verið að styrkja stöðu barna á Íslandi.

Vegna þess sem kallast tvíeðliskenning þarf að lögfesta alþjóðlega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif á Íslandi. Þess vegna er mjög mikilvægt, nú eftir fjögurra ára vinnu, að þetta mál sé komið til atkvæða og á endasprett. Hér er um að ræða mikla réttarbót fyrir börn og ungmenni á Íslandi. Það er ástæða til að þakka dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, og síðar innanríkisráðuneyti, fyrir vinnu að málinu og þeim þingmönnum sem síðar fluttu málið með hv. þm. Helga Hjörvar í fararbroddi og lýsa yfir ánægju með að þetta mál skuli koma til atkvæða. Áhrifin verða ótvíræð í íslenskum rétti til að styrkja stöðu barna í landinu.