141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

155. mál
[15:57]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er um mjög gott mál að ræða. Þingmenn úr öllum flokkum stóðu að því og fyrir hönd Framsóknarflokksins var hv. þm. Birkir Jón Jónsson meðflutningsmaður.

Hérna er verið að tryggja að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hafi réttaráhrif á Íslandi. Þar er meðal annars kveðið á um að barnið eigi rétt á að láta í ljósi skoðanir sínar á málum miðað við aldur þess og þroska, að fötluð börn eigi rétt á að láta skoðanir sínar í ljósi um þjónustu sem þau fá, að fangar undir 18 ára aldri skuli vistaðir á heimili á vegum barnaverndaryfirvalda nema sérstakar ástæður séu til að vista þá í fangelsi o.s.frv.

Þetta eru mörg mjög mikilvæg mál og snúa líka að samningnum um réttindi barns vegna mjög erfiðra mála eins og barnavændis og barnakláms. Það er ánægjulegt að við skulum ganga frá þessu máli í dag. (Forseti hringir.)

Við framsóknarmenn munum segja já með mikilli ánægju.