141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

dómstólar o.fl.

12. mál
[16:00]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Markmið þessa frumvarps er að innleiða nýtt fyrirkomulag við mat á beiðnum um endurupptöku mála hvort sem ræðir um héraðsdóma sem ekki hefur verið áfrýjað eða mál sem dæmd hafa verið í Hæstarétti og eru að mati allsherjar- og menntamálanefndar mikil réttarbót. Við umfjöllun í nefndinni kom fram að óskýrt væri hvort endurupptökunefnd væri ætlað að vera sjálfstæð stjórnsýslunefnd í skilningi stjórnsýsluréttar og hvort starfsemi hennar ætti að heyra undir starfssvið umboðsmanns Alþingis. Nefndin tekur að nokkru leyti undir það og leggur því til breytingu þar sem kveðið er skýrt á um að endurupptökunefnd sé sjálfstæð í sínum störfum.

Það er ástæða til að árétta að með þessari breytingu er verið að leggja áherslu á að endurupptökunefnd sé sjálfstæð í störfum sínum. Henni ber engu að síður að fara eftir stjórnsýslulögum og fellur nefndin einnig undir hefðbundið eftirlit Alþingis. Bendum við á að þegar nefndin synjar um endurupptöku er nauðsynlegt að með þeirri synjun fylgi ítarlegur rökstuðningur.

Þá er ástæða til að nefna sérstaklega hvað varðar beiðnir um endurupptöku mála, sem hefur verið hafnað af Hæstarétti, og viljum við árétta að nefndin getur tekið slík mál til umfjöllunar að nýju (Forseti hringir.) ef gögn koma fram sem leiða til þess að ástæða sé til endurupptöku. Þar með er opnað á endurupptöku mála sem áður hefur verið hafnað af Hæstarétti.