141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

dómstólar o.fl.

12. mál
[16:01]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir umfjöllun um frumvarpið og lýsi því yfir að breytingar þær sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpinu, ég tel þær allar vera til mikilla bóta og þær eru til áréttingar á þeim tilgangi frumvarpsins að búa örugga, gagnsæja og trausta umgjörð, farveg fyrir beiðnir um endurupptöku mála, bæði á sviði einkamála og sakamála og enn fremur hvað varðar áfrýjunarleiðir.

Samþykkt þessa frumvarps mun þýða að þeir dómarar sem dæmt hafa mál munu ekki taka ákvörðun um það eða afstöðu til þess hvort málið skuli tekið upp að nýju. Það er mikil framför og mikil breyting. Það mun líka leiða til þess að ákvarðanir um það hvort mál verða tekin upp eða ekki verða opinberar en þannig hefur það ekki verið til þessa. (Forseti hringir.) Ég hvet þingmenn til þess að styðja þetta góða mál.