141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Nú er frumvarp til breytingar á stjórnarskrá tekið til 2. umr. Mikið hefur verið unnið í málinu áður en það var lagt fram og eftir að 1. umr. lauk. Allar fastanefndir þingsins hafa haft það til umfjöllunar og eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafa þær haldið 70 fundi og fengið til sín fjölda gesta. Umsagnir nefndarinnar fylgja nefndaráliti meiri hlutans. Allir þingmenn hafa komið að vinnunni og lagt efnislega til málsins eða líklega er réttara að segja að þeir hafi haft tækifæri til að leggja efnislega til málsins. Líklegt er að þess sjái stað í umræðunni sem nú er að hefjast. Má kannski segja að sú tilhögun hér í þinginu sé í anda þess ferlis sem verið hefur við gerð frumvarpsins, sem sagt að sem flestir komi að því. Hingað til hafa breytingar á stjórnarskrá verið unnar á allt annan hátt

Það glymur í eyrum, hvort heldur er frá framsóknarmönnum eða sjálfstæðismönnum í þingsölum eða í fréttaflutningi, þá ekki síst hins opinbera fréttamiðils, að þetta mál sé óunnið og að margt eigi eftir að rannsaka og skoða.

Forseti. Ég mótmæli því. Málið er þaulunnið. Það sem hefur skort er að fá samræðu um efnisatriði, samræðu um álitamál. Án slíkrar samræðu næst ekki samstaða, hvað þá sú sátt sem kallað er eftir. Það er alveg ljóst að í umfangsmiklu máli eins og þessu fá aldrei allir allar óskir uppfylltar. Það er líka nauðsynlegt að það komi fram hér að sú söguskoðun að alltaf hafi ríkt sátt um breytingar á stjórnarskránni er ekki rétt. Hún er beinlínis röng.

Virðulegi forseti. Í nýjum ákvæðum í mannréttindakafla frumvarpsins eru stigin stór skref. Tekin eru inn ítarlegri ákvæði en áður hafa gilt um félagsleg og efnahagsleg réttindi og líka svokölluð hópréttindi, en einnig og ekki síður kveður hún á um bein og óbein einkaréttarleg áhrif ákvæðanna.

Þjóðfélagið hefur breyst og það er ekki eingöngu ríkið sem gnæfir yfir heldur hefur vald færst til fyrirtækja og/eða einkarekinna stofnana. Það er því eðlileg þróun að fólk geti ekki eingöngu sótt fyrir rétti að ríkisvaldið geti brotið mannréttindi þess heldur einnig önnur valdabákn sem væru í færum til þess. Um þetta segir Björg Thorarensen í bók sinni Stjórnskipunarréttur, mannréttindi frá 2008, með leyfi forseta:

„Vald og ýmiss konar starfsemi sem áður var einvörðungu á hendi ríkisins og stofnana á þess vegum hefur dreifst á fleiri hendur, til einkafyrirtækja og fjölmennra áhrifahópa sem hafa talsvert efnahagslegt og stjórnmálalegt vald. Í þessu sambandi má einkum nefna fyrirtæki eða samsteypur fyrirtækja, stéttarfélög og stjórnmálaflokka. Ef hafna á kenningu um að stjórnarskrárákvæði um mannréttindi geti bundið aðra en ríkið og stofnanir á þess vegum, er hætt við að vernd mannréttinda verði áfátt.“

Réttaróvissa sú sem mikið er talað um er eftir því sem helst verður skilið annars vegar vegna nýrra efnahagslegra og félagslegra ákvæða og hins vegar vegna beinna eða óbeinna réttaráhrifa í einkarétti. Víkjum fyrst að fyrra atriðinu, efnahagslegum og félagslegum ákvæðum. Í 23. gr. frumvarpsins segir svo, með leyfi forseta,

„Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er. Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.“

Fyrri málsliðurinn felur ekki í sér rétt til heilbrigðis eða ákveðins heilsufarsástands heldur er hún um réttinn til að ráða yfir heilsu sinni og líkama. Þetta felur meðal annars í sér að við höfum rétt til að misbjóða lífi okkar og heilsu ef við svo kjósum en við höfum líka rétt á að okkur sé hjálpað og bjargað við ef við kjósum það, þ.e. við eigum rétt á heilbrigðisþjónustu. Við eigum einnig rétt á því að vinnuskilyrði séu heilsusamleg og við eigum rétt á aðgangi að öruggu og drykkjarhæfu vatni, svo eitthvað sé nefnt. Slíkar forsendur heilbrigðis almennings á ríkisvaldið að tryggja eftir fremsta megni hverju sinni.

Í síðari málsliðnum segir að öllum skuli með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, en þar er rétturinn til heilbrigðisþjónustu útfærður nánar.

Virðulegi forseti. Í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, segir meðal annars að markmið laganna sé:

„að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði í samræmi við ákvæði laga þessara, [lög um sjúkratryggingar], lög um réttindi sjúklinga og önnur lög eftir því sem við á.“

Á sama hátt er markmið laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar:

„að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga og önnur lög eftir því sem við á.“

Virðulegi forseti. Ekki virðist mikil hætta á réttaróvissu vegna þessa ákvæðis. Komum þá að hinu atriðinu sem ég nefndi hér áðan, beinna og óbeinna mannréttindaáhrifa í einkarétti. Nú er það svo að dómstólar hafa þegar tekið tillit til helstu þátta óbeinna einkaréttaráhrifa mannréttindaákvæði í dómum sínum og vísbendingar eru einnig um bein einkaréttaráhrif. Virðist því hér skorið úr þeirri óvissu frekar en hitt. Dómstólar eiga sem sagt að taka tillit til þessara ákvæða en geta ekki ákveðið það sjálfir.

Um einkaréttaráhrif fjallaði ég fyrr og auðvitað verður löggjafinn að setja þá löggjöf sem til þarf og hann verður að sjálfsögðu að fá ráðrúm til þess. Til beinna einkaréttaráhrifa kemur samt sem áður ekki nema í þeim undantekningartilfellum að löggjafanum mistakist í því verkefni.

Virðulegi forseti. Ljóst er að breytingar á löggjöf verða ekki eins og smellt sé saman fingrum. Það hlýtur einfaldlega að vera áskorun á löggjafann að endurskoða nauðsynlega löggjöf. Auðvitað verður hafist handa við það um leið og ný stjórnarskipunarlög hafa verið samþykkt.

Þá vil ég víkja að því sem gagnrýnt hefur verið, að sameina takmörkunarákvæði við mannréttindaákvæði í eina lagagrein eins og gert er í 9. gr. frumvarpsins. Það er sú leið sem þykir réttust nú á tímum í þessum efnum. Í 1. mgr. er ítrekuð skylda ríkisvaldsins til að vernda almenning gegn mannréttindabrotum. Nú getur hins vegar verið nauðsynlegt að takmarka mannréttindi og í 2. mgr. er, ef ég má nota mitt eigið orðalag, rammað inn hvenær það er leyfilegt. Sá misskilningur hefur komið fram að ástæða sé til þess að ætla að ákvæðið feli í sér lakari réttarvernd en í núgildandi mannréttindakafla. Þvert á móti gerir það almennt mun ítarlegri og skýrari kröfu til skerðingar mannréttinda en verið hefur en í þeim fáu tilfellum, sem núgildandi mannréttindakafli og/eða tillögur stjórnlagaráðs voru taldar fela í sér strangari kröfur en leiða má af mannréttindasáttmála Evrópu og 2. mgr. 9. gr., hefur sérfræðihópurinn haldið þeim ákvæðum inni óbreyttum. Það er engin hætta á lakari réttarvernd í þeim efnum.

Í þeim breytingartillögum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur til er auk þess hnykkt á heimild til takmörkunar sem nú ríkir í félagafrelsi og staðfest að það sé vilji löggjafans að sú takmörkun verði enn inni í stjórnarskránni. Þess vegna er því algjörlega vísað á bug að dómstólum sé fært aukið vald til að ákveða undirstöðu mannréttinda í landinu með þessu frumvarpi. Svo og því að eftirlitsstofnunum, umboðsmanni og dómstólum sé gert erfiðara fyrir að skýra lögin en áður var.

Virðulegi forseti. Svo sem þingheimur veit hefur verið leitað til Feneyjanefndar um samspil valdþáttanna í stjórnskipuninni, þ.e. Alþingis, forseta Íslands og ráðherra og ríkisstjórnar og jafnframt um möguleg áhrif aukinna þjóðaratkvæðagreiðslna. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerir því hvorki tillögur að breytingum á kaflanum um forseta Íslands né á kaflanum um ráðherra og ríkisstjórn og heldur ekki á greinum 65–67 sem fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslur og hyggst fjalla um þau atriði á milli 2. og 3. umr. Ég vil samt sem áður benda á almenna umfjöllun um þau atriði í nefndaráliti meiri hlutans.

Vil ég nú víkja að helstu breytingum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur til. Ber þar fyrst að nefna að tekið verði inn ákvæði um íslenska tungu. Tillögur þess efnis bárust nefndinni á síðasta þingi og allsherjar- og menntamálanefnd ítrekar þá tillögu í umsögn sinni. Því er lagt til að ný grein bætist við sem hljóðar svo:

„Íslenska er þjóðtunga á Íslandi og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.“

Lögð er til róttæk breyting á 6. gr. frumvarpsins um jafnræði. Í stjórnarskránni eru taldar upp 8 mismunarástæður sem lagt er bann við og í frumvarpinu er lagt til að þær verði 15, auk orðanna að ákvæðinu sé ætlað að ná til stöðu fólks að öðru leyti, þá að öðru leyti en þessum 15 mismunarástæðum sem eru sérstaklega taldar upp. Sérstök staða fólks með kynáttunarvanda var viðurkennd og henni veitt vörn með lagasetningu á síðasta þingi. Íhugaði meiri hlutinn að bæta orðinu kynvitund við upptalninguna í greininni. Margar ábendingar bárust einnig um að tilgreina holdafar sem sérstaka mismunarástæðu. Réttindabarátta minnihlutahópa ber sem betur fer sífellt meiri árangur. Því er líklegt að listi yfir mismunarástæður sem rétt væri að greina í stjórnarskrá lengist. Stjórnarskránni er ætlað að standa um eitthvert árabil og því leggur meiri hlutinn til að í stað upptalningar á sérstökum mismunarástæðum hljómi greinin einfaldlega svo:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án mismununar.“

Virðulegi forseti. Ekki er ólíklegt að þetta verði gagnrýnt vegna þess að í upptalningu í ákvæðinu felst ákveðin yfirlýsing sem getur jafnframt verið lóð á vogarskálar þeirrar mannréttindabaráttu sem um ræðir. Meiri hlutanum þótti þó vega þyngra að jafnræði á að vera algilt og því óþarft að telja einstaka þætti upp.

Um 13. gr. Meiri hlutinn tekur undir álit fastanefnda um að takmarka megi með lögum rétt útlendinga til að eiga fasteignir eða hlut í atvinnufyrirtækjum hér á landi og áréttar jafnframt að yfirráð yfir landi er mikilvægur þáttur í fullveldi hvers ríkis og leggur því til að ákvæðinu verði bætt inn í 13. gr.

Í tillögum stjórnlagaráðs var að finna ákvæði sem kvað á um að eignarrétti fylgdu skyldur svo og takmarkanir í samræmi við lög. Að mati meiri hlutans felur umrætt ákvæði í sér þarfa áréttingu á þeirri samfélagslegu hlið eignarréttarins að eignarhaldi fylgi ábyrgð eigandans og leggur til að þetta ákvæði fari inn í frumvarpið.

Gagnrýnt hefur verið að 14., 15. og 16. gr. eins og þær birtast í frumvarpinu séu talsvert breyttar frá tillögum stjórnlagaráðs. Meiri hlutinn leggur því til að horfið verði aftur til tillagna stjórnlagaráðsins hvað varðar þær greinar.

Um 14. gr. um tjáningar- og upplýsingafrelsi. Í greininni eins og hún er nú lögð til eru talin upp atriði sem heimila takmörkun tjáningarfrelsis með lögum. Í umræðum um frumvarp stjórnlagaráðs í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á síðasta vetri var bent á að við þá upptalningu ætti að bæta orðinu siðgæði. Ég tel sjálfsagt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hugi að þessu í áframhaldandi vinnu sinni þar sem ákvæðið er komið aftur óbreytt frá því sem það var þegar um það var fjallað.

Ákvæðið um að óheimilt sé að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi er mikilvægt því að netið er bæði fjölmiðill og gagnagrunnur og mikilvægt er að tryggja aðgengi almennings að neti í þágu upplýstrar umræðu og lýðræðis. Netið hefur sérstaka eiginleika sem gerir það sérstaklega viðkvæmt fyrir ritskoðun. Meiri hlutinn telur því sérstaka ástæðu til að tryggja því sess í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Í 15. gr. um upplýsingarétt er tillaga um nýmæli sem varðar mikilvæg réttindi borgaranna til þess að fá aðgang að upplýsingum um starfsemi og ákvarðanir hjá opinberum aðilum í því skyni að auðvelda þeim þátttöku í umræðu um ákvarðanatöku um opinber málefni og eftirlit með starfsemi hins opinbera og ráðstöfun á opinberu fé. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að slíku ákvæði sem styrki og tryggi þennan rétt verði fundinn staður í stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Ljóst er að gildissvið ákvæðisins er vítt og það vekur upp spurningar varðandi upplýsingaskyldu til dæmis eftirlitsstofnana, umboðsmanns Alþingis og dómstóla. Jafnframt er ljóst að stjórnsýslan, hvort heldur er ríkisins eða sveitarfélaga, er ekki í stakk búin til að mæta þeim kröfum sem eru settar fram í frumvarpsgreininni hér og nú. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að ákvæði sem þetta sé fest í stjórnarskrá en jafnframt þurfi að horfa til þess að unnt sé eða verði að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru, annað væri marklaust. Því kæmi meðal annars til álita að skoða nánar gildissvið ákvæðisins eða setja bráðabirgðaákvæði varðandi gildistöku þess þannig að tóm gæfist til nauðsynlegra breytinga hjá stjórnsýslunni og öðrum sem lögin snerta. Það þarf að athuga í áframhaldandi vinnu nefndarinnar.

Fyrir nefndinni komu einnig fram sjónarmið um að hugtakið „erindi“ væri mjög víðtækt, en það er notað í þessari grein, en samkvæmt frumvarpinu er einnig lagt til að erindin séu skráð og skjalfest. Það sem erindi getur tekið til er sem sagt mjög víðfeðmt. Samkvæmt gildandi lögum er nú miðað við mál sem á að skrá hjá stjórnvöldum. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að leggja til breytingu í þá veru að miðað verði við að skrásetja og skjalfesta mál í stað erinda.

Í 16. gr. frumvarpsins er kveðið á um frjálsa, upplýsta þjóðfélagsumræðu og er ákvæðinu meðal annars ætlað að tryggja frelsi og sjálfstæði fjölmiðla. Með ákvæðinu er lagt til að trúnaðarsamband blaðamanna við heimildarmenn sína skuli njóta verndar í lögum. Einnig er kveðið á um í þeirri grein sem nú er lögð fram að í lögum skuli kveðið á um vernd uppljóstrara. Uppljóstrarar og afhjúpendur hafa aðra stöðu en heimildarmenn og þarfnast sérstakrar verndar. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar tók í umsögn sinni eindregið undir sjónarmið um að mikilvægir almannahagsmunir kalli á sérstaka vernd uppljóstrara.

Nefndinni hafa einnig verið kynnt þau sjónarmið að blaðamenn sé ekki nægilega víðtækt orð til að ná til annarra fjölmiðlamanna sem veita á vernd samkvæmt ákvæði frumvarpsins. Meiri hlutinn bendir á að stjórnlagaráð lagði rúma túlkun orðsins til grundvallar skýringum sínum og telur meiri hlutinn engan vafa leika á því hvað liggi til grundvallar við túlkun orðsins blaðamaður og bendir til félagsmanna Blaðamannafélags Íslands í því sambandi.

20. gr. um félagafrelsi. Fastanefndir sem fengu 20. gr. um félagafrelsi til umsagnar fjalla ítarlega um rétt manna til að standa utan félaga í ljósi þess að í greinargerð ákvæðisins kemur fram að vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Rasmussens og Sørensens gegn Danmörku frá 2006 þurfi í kjölfar samþykktar frumvarpsins að endurskoða að meira eða minna leyti það fyrirkomulag forgangsréttarákvæða kjarasamninga sem tíðkast hér á landi. Nefndum þingsins hefur verið bent á að grundvallarmunur er á forgangsréttarákvæðum íslenskra kjarasamninga og þeirra dönsku sem Mannréttindadómstóll fjallaði um í dómi sínum. Í málinu gegn Danmörku var fjallað um tvo tiltekna kjarasamninga sem báðir geymdu fortakslaus aðildarskylduákvæði en ekki forgangsréttarákvæði.

Niðurstaða umræðna og skoðunar var að fordæmisgildi dómsins sé ekki hafið yfir slíkan vafa að áhrif hans verði þau að það fyrirkomulag sem tíðkast hefur varðandi forgangsréttarákvæði kjarasamninga í tugi ára teljist fara gegn hinu neikvæða félagafrelsi, þ.e. rétti manna til að standa utan félaga. Meiri hlutinn tekur undir þessar athugasemdir og áréttar að forgangsréttarákvæði kjarasamninga fara ekki gegn ákvæðinu og mun ákvæðið að því leyti sæta sömu skýringum og verið hefur hingað til. Þá leggur meiri hlutinn til þá breytingu að færa inn í greinina eftirfarandi ákvæði:

„Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.“ Er þetta ákvæði óbreytt frá 74. gr. stjórnarskrárinnar.

Fjallað er um menntun í 24. gr. og kveðið á um rétt til menntunar og fræðslu svo og að skólaskyld menntun skuli vera án endurgjalds. Í frumvarpinu er jafnframt ákvæði um rétt foreldra til að tryggja að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra, þ.e. foreldranna. Um það ákvæði er vísað til 1. viðauka í mannréttindasáttmála Evrópu og alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Í umræðum um ákvæðið hefur komið fram að það taki ekki mið af breyttum viðhorfum og nýjum alþjóðaskuldbindingum því að ekki sé horft til barnasáttmálans og réttinda barna til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar svo og að taka ákvarðanir í samræmi við aldur og þroska. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar bendir á í umsögn sinni að svo virðist sem hér sé að vissu leyti verið að blanda saman ólíkum réttindum, þ.e. trúfrelsi og rétti til menntunar. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að réttur barnsins er tryggður í 12. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um í 3. mgr. að barni skuli tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varða og að taka skuli tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Meiri hlutinn telur því rétt að fara að tillögu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar og fella brott ákvæðið um þennan rétt foreldra.

22. gr. er um félagsleg réttindi. Meiri hlutinn telur ákvæðið skýrt og vísar þar í dóm Hæstaréttar í máli nr. 125/2000 í svokölluðum öryrkjabandalagsdómi, og jafnframt að sú skylda hvíli á ríkinu að kveða í lögum á um réttindi til greiðslna frá almannatryggingum að vissum skilyrðum uppfylltum. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar tekur undir þessi sjónarmið og telur að í ákvæðinu felist réttur til raunhæfrar aðstoðar miðað við aðstæður allar hverju sinni og að uppfylltum þeim skilyrðum sem löggjafanum er heimilt að kveða á um í lögum. Því felist ekki í ákvæðinu breytt réttarástand frá gildandi rétti og að réttur einstaklinga til aðstoðar almannatrygginga sé hvorki rýmkaður né að þrengt sé að svigrúmi stjórnvalda til að skipuleggja kerfi almannatrygginga. Þá áréttar meiri hlutinn að í ákvæðinu felst ekki skylda löggjafans til að setja með lögum sérstakt lágmarksviðmið framfærslu eða ákveðin fátæktarmörk.

25. gr. fjallar um atvinnufrelsi. Þar segir að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa og að í lögum skuli kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem hvíldar, orlofs og frítíma sem og að öllum skuli tryggður réttur til sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu. Til að árétta efnislegt inntak leggur meiri hluti velferðarnefndar til að við upptalninguna bætist orðin aðbúnaður og öryggi og að með því sé tryggður réttur launafólks til öruggs og heilsusamlegs umhverfis. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar tekur undir þessi sjónarmið og leggur til breytingartillögu til samræmis.

Alvarlegar athugasemdir komu frá aðilum vinnumarkaðarins þess efnis að af greinargerðinni mætti skilja að eftir samþykkt frumvarpsins hvíldi sú skylda á löggjafanum að setja lög um lágmarkslaun og þannig í raun takmarka réttinn til frjálsra kjarasamninga. Væri það í beinni andstöðu við gildandi lög sem og fyrirkomulag vinnumarkaðsmála hér á landi síðan á öndverðri síðustu öld. Af þessu tilefni áréttar meiri hlutinn að með ákvæðinu er ekki lagt til að hróflað verði við því fyrirkomulagi sem er og hefur verið á íslenskum vinnumarkaði og allir aðilar eru ásáttir um að halda. Með ákvæðinu eru ekki lagðar til breytingar á gildandi rétti. Til að taka af allan vafa um að með ákvæðinu sé fyrst og fremst verið að treysta rétt samtaka launafólks til frjálsra kjarasamninga er lagt til að orðin sanngjörn laun falli brott úr ákvæðinu og að það orðist þannig að öllum skuli með lögum tryggður réttur til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.

Um réttindi útlendinga í 26. gr. Ákvæðin um ferðafrelsi og dvalarrétt útlendinga eru sambærileg þeim sem eru í 66. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er kveðið á um að með lögum skuli skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér og fyrir hvaða sakir er hægt að vísa þeim úr landi. Sérstakt ákvæði er um rétt flóttamanna og hælisleitenda, sem geta átt á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, til réttlátrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma. Eina nýja réttarstaðan sem þetta ákvæði veitir er að málsmeðferð eigi að vera veitt innan hæfilegs tíma. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar benti á að fleiri en þessir hópar ættu rétt á slíkri málsmeðferð og er farið að þeirri tillögu og því lagt til að útlendingar komi í stað orðanna flóttamanna og hælisleitenda. Ákvæðið tekur þannig með almennari hætti á þessum málum en lagt hafði verið til og veitir útlendingum ríkari vernd enda tekur það til stærri hóps en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Auk þess er tryggt að jafnræðissjónarmið séu virt enda er ákveðnum hópum útlendinga ekki veitt ríkari vernd en öðrum.

Meiri hlutinn áréttar að eina breytingin sem lögð er til í 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. frá gildandi stjórnskipunarrétti er ákvæði um að tryggja skuli málsmeðferð innan hæfilegs tíma.

29. gr. um bann við ómannúðlegri meðferð felur í sér líkt og 68. gr. stjórnarskrár að óheimilt er að vísa mönnum brott, endursenda eða framselja mann til ríkis þar sem hætta er á að hann sæti dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Kveðið er á um persónufrelsi og bann við frelsissviptingu í 27. gr. frumvarpsins og byggist ákvæðið á 67. gr. stjórnarskrár. Í því er þó ekki að finna sambærilega heimild og í 67. gr. stjórnarskrárinnar sem heimilar dómara að láta sakborning lausan gegn tryggingu. Sérfræðingar virðast nokkuð á sama máli um að sú heimild eigi að halda sér í stjórnarskrá. Meiri hlutinn telur rétt að færa ákvæðið inn í frumvarpið og leggur til breytingu því til samræmis. Meiri hlutinn áréttar að verði heimildin nýtt fari fram sjálfstætt mat á öllum málavöxtum og stöðu sakbornings. Telur hann því að sjónarmið sem komið hafa fram um mismunun á grundvelli efnahags ekki eiga við. Þá bendir hann á að heimildin til að láta menn lausa gegn tryggingu felur í sér ákveðið meðalhóf enda er það meginregla í sakamálarétti að ávallt skuli beita vægari úrræðum sé þess kostur.

Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar lagði til breytingu á fyrirsögn ákvæðisins í ljósi þess að því væri ætlað að vernda persónufrelsi en fyrirsögnin endurspeglaði ekki réttindin heldur aftur á móti einungis alvarlegustu takmörkun á réttindum manna. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að fyrirsögn greinarinnar verði persónufrelsi í stað frelsisviptingar áður.

Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til að nefndin skoði hvort breyta eigi orðalagi ákvæðis 27. gr. þar sem kveðið er á um að gæsluvarðhaldi megi aðeins beita fyrir sök sem fangelsisvist liggur við og vitnar í 3. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Meiri hlutinn áréttar að við beitingu ákvæðisins verði ávallt að fara fram mat á aðstæðum og málavöxtum. Eðlilegt sé að ákvæði laga sé fyllra og nákvæmara en ákvæði stjórnarskrár þegar kveðið er á um meginreglu og af því leiði að ekki er óeðlilegt að orðalag laga beri með sér strangara mat á aðstæðum og málavöxtum í máli viðkomandi sakbornings og því ríkari vernd.

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera hér greinaskil, ef ég má orða það svo.

Eins og lesa má í nefndaráliti gerir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd breytingartillögu við 32. gr. um menningarverðmæti og jafnframt gerir hún tillögur um breytingar frá frumvarpinu á 34. gr. sem fjallar um náttúruauðlindir. Hvað varðar þá grein sérstaklega vil ég segja að allir stjórnmálaflokkar hafa lýst því yfir að þeir vilji ákvæði um náttúruauðlindir í stjórnarskrá. Það er því von mín að nú þegar málið er komið til 2. umr. náist fram langþráð samræða um það ákvæði. Að öðru leyti mun varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, gera ítarlega grein fyrir áherslum nefndarinnar í því efni svo og um 32. gr. um menningarverðmæti.

Allnokkrar breytingar eru lagðar til á kaflanum um Alþingi. Ber þar fyrst að nefna breytingarnar á 39. gr. um alþingiskosningar. Stjórnalagaráð lagði til nokkuð ítarlega útfærslu á kosningafyrirkomulaginu. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur til að ákvæðið verði einfaldað. Meginreglur sem eiga að gilda eru settar í stjórnarskrána en löggjafanum síðan eftirlátið að útfæra kosningalöggjöf í samræmi við þau. Geri ég nú grein fyrir einstökum efnisatriðum.

Á Alþingi eiga 63 þingmenn sæti, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára, það þarf ekki útskýringa við. Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt eftir því sem frekast er unnt. Ef landinu er skipt í kjördæmi er ekki unnt að tryggja fullan jöfnuð atkvæða milli kjördæma af reikningslegum ástæðum. Því er lagt til að skeytt verði aftan við ákvæðið lágmarksfyrirvara um að atkvæði skuli vera jafnt eftir því sem frekast er unnt. Feneyjanefndin hefur gefið út reglur um góða starfshætti um málefni kosninga þar sem segir að almennt skuli misvægi atkvæða ekki fara yfir 10% og alls ekki yfir 15%, nema við mjög sérstakar aðstæður.

Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi. Rétt er að taka fram að ekki er þó hægt að skipta landinu upp í einmenningskjördæmi. Ákvæði um listakosningar og hlutfallslega úthlutun sæta væru þá ekki uppfyllt.

Listar eru bornir fram í kjördæmum. Þeir mega vera óraðaðir eða raðaðir samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum. Hér segir að í kosningalögum eigi að gera ráð fyrir að framboð geti, hvort heldur þau kjósa, boðið fram óraðaða eða raðaða lista. Frambjóðandi má vera á fleiri en einum lista sömu stjórnmálasamtaka. Þetta þýðir, virðulegi forseti, í ýtrustu útfærslu að sama listann má bjóða fram í öllum kjördæmum og safna þannig atkvæðum.

Þá segir að kjósandi geti valið lista eða einstaka frambjóðendur í persónukjöri. Hvort heldur listar eru óraðaðir eða raðaðir geta kjósendur breytt honum, þ.e. valið í persónukjöri.

Rétt er árétta að í þjóðaratkvæðagreiðslu var spurt hvort kjósendur vildu auka persónukjör og 78% þeirra sem tóku afstöðu svöruðu spurningunni játandi. Því hlýtur meiri hlutinn að álykta að löggjafanum sé gefin tilsögn um að merking kjósenda með krossum eða tölum verði að hafa meira vægi en í núverandi kosningakerfi og einnig hjá þeim sem velja raðaða lista.

Í lögum má ákveða hvort og í hvaða mæli megi velja frambjóðendur af fleiri en einum lista. Það er sem sagt eftirlátið löggjafanum hvort heimilt verði að velja frambjóðendur þvert á lista og þá í hvaða mæli.

Þá segir að úthlutun þingsæta skuli vera í sem fyllstu samræmi við atkvæðisstyrk stjórnmálasamtaka, lista og frambjóðenda. Ég tel þetta ekki þarfnast nánari útskýringar. Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi. Meiri hluti nefndarinnar áréttar að mikilvægt sé að sú skylda hvíli á þeim sem standa fyrir framboðum að uppfylla þessa jafnræðiskröfu. Í henni er ekki fólgið að breyta eigi úrslitum kosninga að þeim loknum.

Loks segir að breytingar á kjördæmamörkum, tilhögun á úthlutun þingsæta og reglum um framboð sem fyrir er mælt í lögum verði aðeins gerðar með samþykki 2/3 hluta Alþingis. Slíkar lagabreytingar megi ekki gera ef minna en eitt ár er til kosninga. Gildistaka þeirra skuli frestast ef boðað er til kosninga innan eins árs frá staðfestingu þeirra. Nánari reglur um alþingiskosningar skulu settar í lögum.

Virðulegi forseti. Þetta er breytingartillaga sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur fram við þær tillögur sem fyrir lágu. Þetta eru gagnmerkar breytingar. Mér finnst ekkert óskýrt við þær og mér hefur verið tjáð að aðrir sem höfðu áður óskað eftir því vilji ekki fá nánari skýringar þannig að ég hef þá ekki áhyggjur af því.

Í 43. gr. er kveðið á um gildi kosninga. Grundvallarbreyting er að ekki er lengur gert ráð fyrir að Alþingi kveði sjálft upp úr um gildi alþingiskosninga. Í frumvarpinu er landskjörstjórn falið það hlutverk. Þeim sjónarmiðum hefur verið komið á framfæri við nefndina að óeðlilegt sé að fela landskjörstjórn tvíþætt hlutverk sem vart verði talið samræmanlegt, þ.e. stjórnsýslu við undirbúning kosninga og úrskurðarvaldi um þau málefni. Því er lagt til að sérstök nefnd sem skipuð verði af Hæstarétti fái síðarnefnda hlutverkið, þ.e. úrskurðarvald um gildi kosninga.

Þá er það um ákvæði 44.–46. gr. Við fyrri málsgrein 44. gr. er bætt við ákvæði um að forseti Alþingis beri ábyrgð á undirbúningi þingsetningar en ekki framkvæmdarvaldshafar, þ.e. forsætisráðherra eins og nú er eða forseti Íslands líkt og lagt er til í frumvarpinu. Ákvæði þetta er til áréttingar þess að Alþingi er sjálfstætt og handhafar annarra greina ríkisvaldsins hlutast ekki til um málefni þess.

Meiri hlutinn áréttar að átt er við þann forseta þings sem síðastur var kjörinn þrátt fyrir að þingsetning sé að nýafstöðnum þingkosningum. Bendir meiri hlutinn á að nauðsynlegt sé að ákvæði af þessu tagi séu í stjórnarskrá og skýrt sé hver ákveði nákvæmlega þingsetningardaginn, sérstaklega ef þörf þykir á að flýta þingsetningu og eins með hliðsjón af því að kosningar fara nú fram á laugardegi og tveggja vikna fresturinn rennur því út á laugardegi, en það þykir ekki heppilegur dagur til þingsetningar.

Meiri hlutinn leggur auk þess til að síðari málsgrein 44. gr. verði skýrari um að starf Alþingis frá kjördegi til kjördags, þ.e. allt kjörtímabilið, er samfellt. Þingið er því sett aðeins einu sinni, þ.e. að loknum almennum þingkosningum, sbr. 46. gr. Hefur þeim sjónarmiðum verið komið á framfæri að það séu leifar frá gamalli tíð að hvert löggjafarþing sé sett sérstaklega og því slitið og að slíkt eigi ekki lengur við. Meiri hlutinn bendir þó á að eigi að síður geti verið heppilegt að starfslotur þingsins séu aðgreindar og þær til dæmis miðaðar við almanaksárið eða hluta þess, m.a. vegna tilvísana til skjalaumræðna og samþykkta þingsins, en telur rétt að það sé gert með þingsköpum eða lögum um þingsköp. Leggur meiri hlutinn til breytingar þessu til samræmis.

Í 46. gr. er kveðið á um setningu Alþingis. Er þar gert ráð fyrir að forseti Íslands stefni því saman og setji Alþingi hvert ár. Meiri hlutinn vísar til þess að í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til á 44. gr. er það forseti Alþingis sem stefnir þinginu saman og undirbýr setningu þess. Er því lögð til sú breyting að forseti Íslands fái einungis það hlutverk að setja þingið en ekki stefna því saman. Þá eru lagðar til breytingar á ákvæðinu í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til á 44. gr. um að formleg þingsetning sé einungis í upphafi kjörtímabils. Meiri hlutinn telur þó brýnt að halda inni ákvæðum um að fjórðungur þingmanna geti krafist þess að Alþingi sé stefnt saman.

Í 49. gr. er kveðið á um friðhelgi alþingismanna. Í 3. mgr. hennar er að finna nýmæli þar sem kveðið er á um að alþingismönnum og ráðherra sé heimilt að afsala sér friðhelgi þeirri sem þeim var veitt samkvæmt 1. og 2. mgr. Tekur meiri hlutinn undir það með forsætisnefnd að ákvæðið bjóði þeirri hættu heim að þingmaður verði beittur þrýstingi til að afsala sér friðhelgi. Markmið 49. gr. er að tryggja friðhelgi þingmanna. Verður ekki annað séð en að ákvæði 3. mgr. gangi gegn því markmiði og geti orðið til þess að takmarka málfrelsi þingmanna. Leggur meiri hlutinn því til að þetta ákvæði falli brott.

50. gr. kveður á um hagsmunaskráningu og vanhæfi þingmanna. Þegar litið er til handhafa þriggja þátta ríkisvaldsins eru ólíkar hæfiskröfur gerðar til þeirra. Það er eftir því hvort litið er til starfa óvilhallra dómara sem bundnir eru af lögum um úrlausn mála og skipaðir til langs tíma og pólitískum störfum þingmanna sem sækja umboð sitt til kjósenda á fjögurra ára fresti. Ástæður þess að gerðar eru mjög vægar hæfiskröfur til þingmanna er sú að ekki er ætlast til að þeir séu hlutlausir í störfum sínum. Þvert á móti er það hlutverk Alþingis á grundvelli lífsviðhorfa meiri hluta þingmanna í hverju máli að velja hvaða hagsmuni á að leggja áherslu á og veita framgang í löggjöf, eftir atvikum á kostnað annarra hagsmuna.

Í skýringum í greinargerð með 50. gr. er vísað til sjónarmiða úr stjórnsýslunni en fyrir nefndinni kom fram að erfitt er að finna hagsmuni í stjórnsýslunni sem svipar til eðlis þingstarfa. Því þykir óraunhæft að bera þetta tvennt saman. Meiri hlutinn telur þó brýnt í ljósi atburða síðustu ára og aukinnar kröfu um að valdi fylgi ábyrgð pólitískra og lýðræðislega kjörinna fulltrúa að settar verði reglur um sérstakt hæfi þingmanna og skyldur þeirra til að veita upplýsingar um fjárhagsleg tengsl sín og hagsmuni.

Við 52. gr. er lögð til sú breyting að fella niður síðustu málsgreinina sem kveður á um að þingforseti láti af þingstörfum.

Þá er það 55. gr. Í frumvarpinu er lagt til að ekki sé heimilt að halda lokaða þingfundi. Meiri hlutinn telur vafasamt að girða með öllu fyrir þennan möguleika þar sem ekki er hægt að sjá fyrir allar mögulegar aðstæður sem geta skapast, einkum á meiri hlutinn þar við aðstæður sem mögulega gætu komið upp á alþjóðavettvangi og ógnuðu öryggi ríkisins eða brýnum þjóðarhagsmunum. Þá telur meiri hlutinn rétt að benda á að fundir Alþingis eru ekki eingöngu opnir gagnvart íslenskum almenningi og fjölmiðlum heldur öllum heiminum. Meiri hluti utanríkismálanefndar bendir á að ekki sé hægt að útiloka að til dæmis geti erfið og knýjandi utanríkismál eða milliríkjamál verið þannig vaxin að eðlilegt sé að loka fundum Alþingis fyrir erlendum aðilum sem annars gætu fylgst með fundum. Meiri hlutinn telur því að heimild til lokunar þingfunda eigi að vera til staðar en hún verði skilyrt við þau atvik þegar öryggi ríkisins og brýnir þjóðarhagsmunir krefjast þess og að 2/3 atkvæða þurfi til að ákveða það.

56. og 58. gr. fjalla um flutning og meðferð þingmála. Þær breytingar sem lagðar eru til á þessum greinum frá frumvarpinu eru efnislega þær að skipulag um meðferð þingmála, m.a. hversu lengi þau lifa, verði ákveðið með þingsköpum en því ekki skipað niður í stjórnarskrá.

Ekkert var hreyft við ákvæði í 57. gr. um að lagafrumvarp megi ekki samþykkja fyrr en eftir minnst tvær umræður á Alþingi. Í því sambandi má benda á að það má ákveða nánar með lögum.

Vegna þess að engar breytingar eru lagðar til á kaflanum um forseta Íslands eða ráðherra og ríkisstjórn geri ég hér grein fyrir 72. gr.

Samhliða því að þjóðareign á auðlindum verður stjórnarskrárbundin er lagt til að eftirfarandi verði leitt í lög um eignir og skuldbindingar ríkisins:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila.“

Við gr. 74 um Ríkisendurskoðun er gerð sú breyting að vitnað verður til stofnunarinnar en ekki ríkisendurskoðanda.

Í 75. gr. um umboðsmann er lagt til að fella út setninguna: „ákveði ráðherra eða annað stjórnvald að hlíta ekki sérstökum tilmælum umboðsmanns skuli tilkynna forseta Alþingis um þá ákvörðun“.

Sérstaða mála sem tekin eru fyrir hjá umboðsmanni Alþingis felst í því að þau varða hagsmuni einstaklinga. Því er til staðar sú hætta að tilkynningu sem þessari fylgi umfjöllun um persónuleg málefni.

Ekki hafa komið fram miklar athugasemdir við kaflann um dómsvald. Þó hefur verið bent á að færst hefur í vöxt að færa dómstólum hlutverk sem ekki eru bein dómsmál og gæti það dregið úr sjálfstæði þeirra. Sjálfsagt er að athuga þessar ábendingar nánar í frekari vinnu nefndarinnar.

Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vill þó sérstaklega benda á að ákvæði um sérdómstól í 101. gr. kemur ekki í veg fyrir að stofnað verði millidómstig ef vilji löggjafans stæði til þess.

Sérstakur kafli um utanríkismál er nýmæli og til marks um aukið vægi þessara mála og þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Samráð við utanríkismálanefnd um mikilvæg utanríkismál verður stjórnarskrárbundið og er það gleðiefni. Sömuleiðis tekur meiri hlutinn undir athugasemdir í umsögn meiri hluta utanríkismálanefndar um að sjálfsagt sé að áskilja samþykki Alþingis fyrir ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds aðrar en þær sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti.

Meiri hlutinn tekur undir þær athugasemdir í umsögn meiri hluta utanríkismálanefndar að mikilvægt er að taka af allan vafa um að samningsgerð við önnur ríki sé á hendi utanríkisráðherra. Aðrir ráðherrar geta eftir atvikum komið fram fyrir hönd íslenska ríkisins á sviðum sem heyra undir einstök fagráðuneyti, en almennt verður að gera ráð fyrir að þeir geti ekki bundið íslenska ríkið að þjóðarétti með samningum við önnur ríki nema eftir umboði utanríkisráðherra.

Sömuleiðis tekur meiri hlutinn undir athugasemdir í umsögn meiri hluta utanríkismálanefndar um að brott falli áskilnaður fyrir samþykki Alþingis ef samningar samkvæmt greininni eru mikilvægir af öðrum ástæðum og gerir meiri hlutinn tillögu um breytingu á greininni þar að lútandi.

Breytingin sem lögð er til á 111. gr. frumvarpsins um framsal fullveldis er mikilvæg. Lagt er til að hún orðist svo:

„Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga í þágu friðar, efnahagssamvinnu eða réttarvörslu sem fela í sér framsal tiltekinna þátta ríkisvalds sem íslensk stjórnvöld fara með samkvæmt stjórnarskrá þessari til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að eða ef um er að ræða alþjóðasamvinnu sem Ísland tekur þátt í. Þó er óheimilt að framselja ríkisvald til að breyta stjórnarskránni eða mörkum íslensks yfirráðasvæðis eða til takmörkunar á mannréttindum umfram heimildir í stjórnarskrá. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft. Dómstólar geta ávallt endurmetið efni, umfang og lögmæti framsals í ljósi meðferðar alþjóðastofnunar á framseldum valdheimildum á hverjum tíma. Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst. Lög sem heimila framsal ríkisvalds þurfa samþykki 2/3 hluta atkvæða á Alþingi. Náist ekki sá meiri hluti atkvæða en þó einfaldur meiri hluti skulu lögin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Við gerð þjóðréttarsamninga um aðild Íslands að alþjóðastofnunum sem fara með yfirþjóðlegt vald og falla undir 1.–3. mgr. skulu heimildarlög borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar.“

Nánar um þetta. Ég vil í fyrsta lagi nefna síðustu málsgreinina um heimildarlög. Það þýðir að þegar samningur um aðild að Evrópusambandinu liggur fyrir verður hann borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Þessi grein felur einnig í sér að hefðum við verið í Evrópusambandinu þegar nýr ríkisfjármálasáttmáli var samþykktur þar á síðasta ári hefði þurft að bera það undir þjóðina hvort við hefðum átt að gerast aðilar að honum.

Í öðru lagi hvað varðar framhald EES-samningsins og því gráa svæði sem við erum ávallt á varðandi stjórnarskrána verður það svo að ríki vafi um hvort framsal valds er það þingið sem sker úr um hvort efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslu eður ei á þann hátt að ef 2/3 þingmanna samþykkja breytinguna er hún fullgild, en ef hins vegar einungis næst einfaldur meiri hluti á þingi verður málið borið undir þjóðina. Þannig skil ég þessa grein.

Ítarlegri skýringar fylgja þessum greinum í umsögn utanríkismálanefndar.

Loks um breytingar á stjórnarskrá. Ekki er lögð fram breyting á greininni eins og hún er í frumvarpinu. Þar eru vissulega álitaefni sem vonandi verða rædd hér í þingsal.

Samkvæmt frumvarpinu verða allar breytingar á stjórnarskrá bornar undir þjóðaratkvæði. Breytingar á öðrum köflum en mannréttindakafla yrðu samþykktar á þingi og síðan bornar undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu. Um breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar yrði hins vegar áfram gert ráð fyrir staðfestingu tveggja þinga á breytingunum líkt og er nú í 79. gr. stjórnarskrárinnar.

Virðulegi forseti. Stjórnarskránni er ekki síst ætla að verja réttindi borgaranna fyrir vilja og valdi meiri hlutans hverju sinni. Af þeim sökum er bent á að óheppilegt sé að meiri hlutinn, hvort sem er meiri hluti þingmanna eða kjósenda, geti breytt stjórnarskránni með mjög skömmum fyrirvara. Af þessum sökum gera ákvæði um breytingar á stjórnarskrám iðulega ráð fyrir að slíkar breytingar krefjist nokkurrar fyrirhafnar og ígrundunar.

Meiri hlutinn gerir ekki tillögu að breytingu á þessu ákvæði að þessu sinni en telur eðlilegt að þingheimur fjalli ítarlega um þetta atriði. Í fyrsta lagi hvort heppilegt sé að mismunandi aðferðir séu viðhafðar við breytingar á einstökum köflum stjórnarskrárinnar og í öðru lagi hvort sú aðferð sem nú gildir sé hugsanlega of þung í vöfum. Á hinn bóginn má spyrja hvort meirihlutaákvörðun þings og þjóðar sé of fyrirhafnarlítil.

Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið yfirferð yfir þetta mikla mál. Það hefur verið venja hér þegar fjallað er um stærsta mál í þinginu sem tekið er fyrir á hverjum vetri, sem eru fjárlög ríkisins, að vinna í fjárlaganefnd heldur áfram. Ég hafði vonað að það gæti orðið um þetta mikla verkefni og við getum rætt áfram þau álitaefni sem mönnum þykir út af standa. Það hlýtur náttúrlega að vera þingmanna sem sitja í nefndinni að ákveða það. Ég fel mig í þeirra hendur, þannig á að orða það.

Það er mikill vilji af hálfu okkar sem berum fram þetta frumvarp að um það skapist efnislegar umræður, að við komumst að sameiginlegri niðurstöðu um efni þessa máls. Ég vona sannarlega að ég verði ekki fyrir vonbrigðum í því hvernig umræður munu ganga hér í þinginu því vissulega er það vilji okkar að vinna þetta eins vel og mögulegt er.