141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir þetta svar. Þá er það orðið skýrt og þá þurfa þingmenn ekki að velkjast í vafa um að mál sem er vísað til nefndarinnar á nefndarfundum verður tekið fyrir í samlyndi og sátt. Það er gott og því fagna ég.

Þá langar mig til að spyrja þingmanninn: Hefur hún ekki áhyggjur af því sem hefur komið fram fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd? Að greinargerðin sem fylgir frumvarpinu uppfyllir ekki þau skilyrði að vera lögskýringargagn frumvarpsins komi til dómsmála, og þau verða fjölmörg vegna þess að þarna er verið að leggja til svo miklar og róttækar breytingar á stjórnarskránni. Er ekki alvarlegt þegar meiri hluti nefndarinnar ákveður að sinna ekki þeim ábendingum sem fram hafa komið um framkvæmd laganna?