141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að mannréttindakaflinn þarfnist enn sérstakrar umræðu og mun koma nánar inn á það síðar. Ég verð þó að vekja athygli á því að þeim áhyggjum sem hafa komið fram af hálfu flestra þeirra fræðimanna sem um þennan kafla hafa fjallað er að litlu leyti mætt í þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir.

Ég vildi spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur um annað atriði. Það hefur með framhald vinnunnar hér í þinginu að gera frekar en innihald málsins. Það varðar það hvort hún hafi sem formaður nefndarinnar nánari upplýsingar um hvenær sé að vænta bráðabirgðaálits Feneyjanefndarinnar. Það hefur verið nokkuð á reiki hvort það yrði við lok þessa mánaðar, í byrjun næsta mánaðar eða um miðjan febrúar. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhverjar nýjar upplýsingar um hvenær búast megi (Forseti hringir.) við að bráðabirgðaálit Feneyjanefndarinnar komi fram.