141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Þingmaðurinn hafði ekki tækifæri í þessu stutta svari til að fara yfir spurningu mína varðandi Feneyjanefndina. Ef Feneyjanefndin gerir viðamiklar tillögur til breytingar og kemur með ábendingar, er málið þá ekki fallið á tíma? Ég ber þá spurningu upp aftur.

En varðandi það sem þingmaðurinn fór yfir í andsvari sínu þá er rétt að það er verið að breyta grunnskipulagi stjórnarskipunar landsins. Það verið að opna á óteljandi dómsmál og réttarágreining sem kemur í kjölfarið. Því spyr ég þingmanninn nánar út í það sem hann fór aðeins yfir í ræðu sinni. Þessi gildistökufrestun sem lögð er til og sú hugsun að einhver hluti stjórnarskrárinnar eigi ekki að taka gildi fyrr en einhvern tíma í framtíðinni — er ekki hugsanlegt að borgarar þessa lands geti rekið dómsmál einungis á væntingarákvæði um að eitthvað sé um það bil að koma inn í stjórnarskrána? (Forseti hringir.) Veldur það ekki líka mikilli réttaróvissu?