141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:45]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir framsögu hans og jafnframt það ítarlega álit sem hann hefur tekið saman úr þeim ábendingum og athugasemdum sem hafa komið frá ýmsum aðilum við vinnslu þessa frumvarps. Ég fagna því að þetta efni liggur nú allt fyrir á einum stað og auðvelt að nálgast það.

Ég fagna því líka að þessi efnislega umræða er farin af stað og þakka fyrir efnislegu yfirferð hv. þingmanns því að það skiptir auðvitað miklu máli að við fáum núna tækifæri til að fara sameiginlega yfir þetta mál og ræða það með þingheimi öllum líkt og við höfum gert með ágætum hætti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á undanförnum mánuðum.

Í þessu ítarlega plaggi, nefndaráliti upp á ríflega 70 blaðsíður, er víða komið við. Það vekur athygli að tínd eru til öll þau gagnrýnisatriði sem hafa komið fram og er erfitt að lesa út úr því hvort hv. þingmenn, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, taka undir allar þær athugasemdir og ábendingar eða hvort leikurinn sé fyrst og fremst gerður til að tína þessi atriði öll til á blað. Það er erfitt að lesa út úr því. Hitt vekur ekki síður athygli að þrátt fyrir allar þær ábendingar og athugasemdir sem hér er vikið að er ekki að finna eina einustu tillögu frá hv. þingmönnum í þessu ítarlega skjali eða vísbendingar um það í hvaða átt menn telja rétt að fara í málin með öðrum hætti en meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur gert með framlagningu sinni og breytingartillögum sem þar er að finna. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hverju það sæti að við séum ekki hér með (Forseti hringir.) í höndum einhverjar slíkar breytingartillögur frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.