141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:51]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil eins og hv. þm. Lúðvík Geirsson þakka fyrir ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar og ekki síður fyrir hið ítarlega og mikla nefndarálit sem liggur fyrir á þskj. 958, sem er verðmætt og málefnalegt innlegg í þessa umræðu. Þar er að vísu, eins og hv. þm Lúðvík Geirsson tók fram, aðallega dregin upp öll sú gagnrýni sem mögulegt er að finna á einstök ákvæði frumvarpsins, en það er líka gott að hafa það allt á einum stað og ég þakka fyrir það og fyrir þessa umræðu.

Mig langar til að víkja að einu atriði sem ekki hefur mikið verið rætt og var ekki rætt á fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, það er 31. gr. sem er nýmæli, en í henni segir, með leyfi forseta:

„Herskyldu má aldrei í lög leiða.“

Það vekur athygli mína að í nefndaráliti hv. þingmanns Ólafar Nordal kemur fram það álit á þessu ákvæði að bann við herskyldu geti haft alvarlegar afleiðingar og ákvæðið sem slíkt beri vott um skammsýni og þarfnist nánari rökstuðnings. Ég hlýt að spyrja á hverju það mat hv. þingmanns og minni hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd byggist að það beri vott um skammsýni að hér megi ekki leiða herskyldu í lög. Það er ljóst að ákvæði sem þetta mundi ekki hafa mikil réttaráhrif. Hér er ekki herskylda og stendur væntanlega ekki til að kveðja menn til vopna eins og tíðkast í löndum þar sem herskylda er.