141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það ákvæði sem hv. þingmaður nefnir er raunar ekki eitt af þeim ákvæðum frumvarpsins sem ég hef mestar áhyggjur af. Það sem við erum að vísa til með orðalagi okkar í nefndarálitinu er fyrst og fremst að ekki er óhugsandi að upp komi aðstæður sem geti kallað á herskyldu, vopnkvaðningu eða eitthvað þess háttar. Sem betur fer eru það mjög fjarlægar aðstæður og ekki er ég talsmaður herskyldu en ég velti hins vegar fyrir mér hvort það þjóni einhverjum tilgangi að hafa ákvæði af þessu tagi í stjórnarskrá, hvort það geti ekki komið upp þær aðstæður að það sé óþarft eða til óþurftar, skulum við segja, án þess að ég telji að þetta sé mjög veigamikið atriði.

Ég er þeirrar skoðunar að almennt þurfum við Íslendingar ekki á herskyldu að halda. Raunar hefur þróunin í flestum okkar nágrannalöndum verið sú að byggja frekar upp atvinnumannaher en að byggja á almennri herskyldu. En ef við veltum fyrir okkur stöðunni eins og hún er og eins og hún gæti orðið í ýtrustu neyðartilvikum er spurning hvort ástæða sé til að hafa ákvæði af þessu tagi í stjórnarskrá.