141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:39]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að ræða aðeins við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um mannréttindakaflann sem er í þessu frumvarpi til stjórnarskipunarlaga, sér í lagi þær athugasemdir sem fram hafa komið frá fjöldamörgum sérfræðingum á sviði stjórnskipunarréttar, umboðsmanni Alþingis og fleirum, um að ákvæði kaflans sé svo óskýrt að það verði í höndum dómstóla að stóru leyti að túlka það sem í kaflanum felist, þau einstöku ákvæði sem í honum felast, og jafnframt að verið sé að leggja hér af stað í svo mikla óvissuferð að menn hafi enga vissu fyrir því hvað einstök ákvæði þýða.

Nú liggja fyrir breytingartillögur af hálfu meiri hluta nefndarinnar þar sem í mörgum tilvikum er verið að víkja frá þeim athugasemdum sem sérfræðinganefndin hafði um einstök ákvæði eins og til að mynda er í mannréttindakaflanum og farið aftur í tillögur stjórnlagaráðs án neins rökstuðnings um það af hverju það er gert, heldur er það bara gert og því lýst að þau ákvæði séu skýrari en þau sem sérfræðingahópurinn hafði þó farið yfir.

Mig langar hreinlega til að spyrja hv. þingmann hvernig hún líti á þetta mál, hvort hún telji að það sé svo að dómstólar muni í ríkari mæli þurfa að túlka þessi ákvæði; eða hvort hún taki undir með formanni nefndarinnar sem sagði í framsöguræðu sinni að það sé hafið yfir allan vafa að ákvæðin væru mjög skýr og ættu ekki að valda neinum ruglingi fyrir dómstóla í landinu.