141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir ræðu hennar. Ég gaf á engan hátt í skyn að ég væri orðin leið á því að hlusta á mál hennar. Ég hlustaði með athygli vegna þess að raunverulega var ég að fá aðra umferð á hugmyndum meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um hvernig ætti að útfæra þetta splunkunýja ákvæði varðandi auðlindir og tengingu þeirra við umhverfisrétt þannig að ég varð að hlusta af athygli. Ég vil að þingmaðurinn dragi þau orð sín til baka að ég hafi hvatt hana til að hætta ræðu sinni, það er alfarið rangt, enda sitjum við í sömu nefnd og ræðum þar oft þau mál sem snúa akkúrat að þessu.

Nú hafa orðið miklar breytingar að tillögu nefndarinnar varðandi þau ákvæði sem þingmaðurinn fór yfir — hvert sér hún framhaldið í störfum nefndarinnar varðandi akkúrat þessi ákvæði? Þetta var sett svona inn í frumvarpið, þ.e. í formi breytingartillögu, sl. laugardag. Nefndin var ekki kölluð saman á þriðjudaginn á reglulegum fundartíma, það var fundarfall, og nú er málið komið hingað til 2. umr. Fær minni hlutinn ráðrúm til að kalla til sín sérfræðinga á sviði eignarréttar, auðlindaréttar og umhverfisréttar eða hvert er framhaldið? Fyrir þá þingmenn sem starfa í hinum nefndunum, fyrst verklagið er dásamað í ræðu þingmannsins, þá sáu þeir ekki frumvarpið fyrr en breytingartillöguskjalinu var dreift í þinginu eða heyrðu rökstuðninginn fyrir því. Nú er málið rætt að kvöldi til og margir á öðrum fundum og annars staðar — hvernig á að finna út úr því stóra máli sem þessi breytingartillaga felur í sér svo að ákvæðið falli inn í frumvarpið í heild sinni?