141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafi misskilið orð mín því að ég hlustaði svo sannarlega á ræðu hennar af athygli. Það sem ég meinti með því að ákvæðið væri splunkunýtt er að það er splunkunýtt sem breytingartillaga við það frumvarp sem liggur fyrir þinginu. Það er það sem ég er að tala um. Það eru um 20 þingdagar eftir þannig að ég er bara að reyna að halda utan um allar þær breytingartillögur sem hafa komið við frumvarpið í 40 töluliðum og birst þingmönnum í dag.

Þetta eina ákvæði, um að binda auðlindir þjóðarinnar í stjórnarskrá, er eitt og sér gríðarlega stórt og umfangsmikið verkefni sem þarf að orðast með þeim hætti að um það ríki sátt og skilningur allra á hvað átt sé við. Það er það sem ég er að tala um með því að segja að þetta sé nýlunda og splunkunýtt ákvæði. Ég er þokkalega vel að mér í auðlinda- og umhverfisrétti og þekki allar þessar skýrslur og álit og það sem þingmaðurinn vísaði í og veit allt um það þannig að það sé leiðrétt hér í sambandi við að ákvæðið sé splunkunýtt.

Þingmaðurinn vísaði í þingmenn Framsóknarflokksins liðinna ára. Það er á stefnuskrá Framsóknarflokksins að binda auðlindir þjóðarinnar í stjórnarskrá. Það á ekki að koma nokkrum einasta manni á óvart að þingmenn flokksins hafa talað þannig enda er það í fyrsta sæti hjá þingmönnum Framsóknarflokksins að þegar gengið verður til samninga um að setja eitthvað af því sem í frumvarpinu er í stjórnarskrána þá er það auðlindaákvæðið. Það er öllum ljóst. Það kom síðast fram í nefndaráliti mínu frá því í dag, sem ég fór yfir í ræðu minni. Ég hef boðið stjórnarmeirihlutanum þetta á samningafundi sem við í minni hlutanum höfum verið boðuð á. Auðlindaákvæðið er nr. eitt hjá Framsóknarflokknum. Þess vegna er sá málflutningur orðinn visinn og fúinn hjá þeim stjórnarliðum sem halda því enn fram að Framsóknarflokkurinn vilji ekki breyta stjórnarskránni vegna þess að hann vilji ekki sjá auðlindir þjóðarinnar í stjórnarskrá. Sá tími er liðinn og nú verður að fara að snúa þessari gagnrýni á Framsóknarflokkinn varðandi stjórnarskrána upp í eitthvað jákvætt því að þetta er það sem við setjum í forgang þegar breyta á stjórnarskránni.