141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í umræðum um störf þingsins í gær lét hv. 9. þm. Norðvest. Ásmundur Einar Daðason falla ummæli í minn garð sem ég tel ástæðu til að gera athugasemdir við og mótmæla. Þar sagði hann meðal annars að ég hefði verið í hópi þeirra sem hefðu ætlað að koma Icesave-samningnum óséðum í gegnum Alþingi og ég væri einn þeirra sem hefði beitt félaga mína mjög grimmilegum aðferðum, án þess að skýrt væri með nokkrum hætti hvað þar væri átt við.

Ég vil lýsa því að þetta eru ósönn og ósmekkleg ummæli. Hv. þingmaður veit að á þeim tíma sem þetta mál var til umfjöllunar á Alþingi 2009 var ég starfandi varaformaður fjárlaganefndar, var vakinn og sofinn yfir þessu máli og lagði mikla vinnu á mig til að afla gagna og fjalla um það þannig að þessi ummæli eru rakalaus. Þau eru rógburður og illmælgi og ég vísa þeim aftur í þau iður úr hverjum þau eru runnin.