141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

tilraunir flóttamanna til að komast í skip.

[10:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við munum það líklega öll þegar tveir flóttamenn komust óséðir um borð í flugvél á Keflavíkurflugvelli, í millilandavél. Það er mjög merkilegt að alþjóðasamfélagið skyldi ekki hafa gripið inn í þá atburðarás og jafnvel lokað Keflavíkurflugvelli, en það eru ekki bara flugvellirnir sem eru opnir heldur er þróunin sú að í kringum áramótin 2009/2010 fór að bera mjög á því að hælisleitendur hér á landi gerðu skipulagðar tilraunir til að komast um borð í skip í Sundahöfn, sem halda uppi áætlanasiglingum milli Íslands og Norður-Ameríku, til þess að komast óleyfilega þangað.

Þrátt fyrir ítrekaða fundi með yfirvöldum hérlendis um fyrirbyggjandi aðgerðir af hálfu stjórnvalda hefur nánast ekkert áunnist í því að stöðva flóttatilraunir flóttamanna héðan. Þann 24. janúar síðastliðinn sá Amerísk-íslenska viðskiptaráðið sig knúið til þess að senda út fréttatilkynningu varðandi þessi mál. Má lýsa því í sem fæstum orðum sem svo að það hafi verið ákall um breytingar, ákall til stjórnvalda um að aðhafast í málinu.

Því spyr ég hæstv. innanríkisráðherra: Hvernig ætlar ríkisvaldið að bregðast við því vandamáli að Ísland sé í raun orðið stökkpallur flóttamanna héðan til annarra ríkja í von um betra líf?