141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

orð forseta Íslands um utanríkismál.

[10:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Ég ætla að minna hv. þingmann á það að þegar hans flokkur var í stjórn og hrunið varð þá var það ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem rak héðan bresku þoturnar sem áttu að koma í loftrýmisgæslu, það var annar ráðherra. Það var ekki forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins heldur var það utanríkisráðherra Samfylkingarinnar, sem þá var starfandi, sem sagði úr þessum stól: Ég kyssi ekki á vönd kvalara minna. (Gripið fram í: … manst …)

Ég vil líka segja að mér þykir miður að hv. þingmaður skuli með þessum hætti sneiða að starfsmönnum utanríkisþjónustunnar. Sjálfsagt er að hann ráðist með pólitískum hætti að utanríkisráðherra en það sem hann sagði hér um starfsfólk þess ágæta ráðuneytis er ómaklegt og rangt og það veit hv. þingmaður. Ég ætla ekki að fara frekar yfir það. Ég vísa því algjörlega til föðurhúsanna að utanríkisþjónustan hafi ekki staðið í stykkinu þegar þau leiðindamál sem Sjálfstæðisflokkurinn leiddi meira og minna yfir þjóðina stóðu yfir.

Hins vegar, um forseta Íslands, vil ég segja að ég lít svo á að hann sé góður liðsmaður í utanríkismálum Íslands. Hann hefur langhæsta rödd allra þeirra sem tala á Íslandi. Hann er þjóðhöfðinginn. Hann hefur til dæmis tekið þátt í því að setja málefni norðurslóða á dagskrá og það hefur skipt miklu máli. Ég er þeirrar skoðunar að margt það sem forseti Íslands hefur sagt um utanríkismál sé ekki af semingi slegið heldur af djúpu mannviti mælt. Ég sagði það hér í gær í umræðum um ný drög að stjórnarskrá, sem liggja fyrir, að ég teldi óviturlegt að draga aðra ályktun en þá að það hefði í fyrsta lagi verið alveg rétt af Indefence-hópnum að fara í herferð sína og sömuleiðis væri óviturlegt í ljósi atburðarásarinnar að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að það hefði verið rétt af forseta Íslands að beita málskotsréttinum. Þetta hef ég sagt, bara svo að það liggi algjörlega fyrir, og sagði það síðast í gær.

Ég hef aðrar skoðanir en forseti Íslands á Evrópumálum en ég hef aldrei heyrt forsetann tala um að það eigi að slíta viðræðunum. Ég hef aldrei heyrt hann tala um það. Það hefur ekki nokkur maður gert það nema örfáir í þessum sal. (Forseti hringir.) Það er vegna þess að hann ber dýpra og betra skyn á utanríkismál en sá flokkur sem hv. þingmaður talar fyrir.