141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

niðurstaða EFTA-dómstólsins og afstaða innanríkisráðherra.

[11:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það réð því engin tilviljun að ég sagði af mér embætti heilbrigðisráðherra haustið 2009 og því síður er ég sammála því að tilviljun hafi ráðið þessu ferli, því fer fjarri. Niðurstaðan í úrskurði EFTA-dómstólsins á ekki að þurfa að koma á óvart. Þingmenn á Evrópuþinginu, sem tóku þátt í smíði tilskipunarinnar um tryggingarsjóð innstæðueigenda, höfðu marglýst því yfir, m.a. í íslenskum fjölmiðlum, að ríki bæru ekki ábyrgð í þeim mæli sem Bretar og Hollendingar fullyrtu enda er það þess vegna sem Bretar og Hollendingar vildu aldrei láta reyna á þetta fyrir dómstólum og kröfðust þess að samningar við þá yrðu staðfestir með lögum frá Alþingi.

Sumarið 2009 var ekki síst tekist á um það hvernig fyrirvarar Íslands hvað þetta varðar yrðu orðaðir. Á endanum var málið tekið úr þessu ferli. Það var þjóðin sem gerði það og þar með var það komið upp úr þeim farvegi sem Bretar og Hollendingar, Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn höfðu þröngvað því niður í.