141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

ástandið á Landspítalanum.

[11:06]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vekur athygli á óvissustigi á Landspítalanum vegna innlagna út af flensu og raunar voru sýkingar þar líka. Sem betur fer virðist ástandið vera að jafna sig en eftir sem áður hefur þetta reynt mjög á. Ríkisstjórnin gaf alveg klár fyrirmæli, og ég sem velferðarráðherra, að þar yrði gert allt sem hægt væri til að taka inn opnar viðbótardeildir til að tryggja að fólk fengi þjónustu óháð því hvað það mundi hugsanlega kosta.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að halda því til haga að starfsfólk hefur sinnt þessu af einstakri natni og dugnaði og gert allt til að láta hlutina ganga. Þetta er ástand sem hefur því miður fylgt flensunni, ekki bara hér á landi heldur líka í Danmörku og Bandaríkjunum eins og við vitum.

Það er líka rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að það hefur verið vandamál að koma fólki sem er búið að fá sjúkrahúsmeðferð yfir á hjúkrunarheimili vegna plássleysis. Vandamálið við það er að fólk á rétt á að velja sér pláss, það á möguleika á að velja milli þriggja stofnana. Eitt af vandamálunum hefur verið að fólk hefur neitað að fara inn á ákveðin heimili. Það er nokkuð sem við erum að reyna að vinna bug á, þ.e. að fólk geti valið um að vera í sjúkrahúsplássi á móti hjúkrunarrými. Það er ekki vegna þess að það vanti hjúkrunarrými úti á landi, þau pláss eru í sjálfu sér til, en við höfum ekki getað farið í slíka flutninga. Til dæmis af því að hv. þingmaður nefnir Snæfellsbæ þá hefur verið boðist til að taka við fólki til viðbótar á Blönduósi. Leitað hefur verið til kragasjúkrahúsanna, Selfoss, Akraness og Suðurnesja. Þau hafa verið að taka á móti fólki og hjúkrunarheimilin á höfuðborgarsvæðinu hafa líka verið að taka inn fólk. Ein af ástæðunum fyrir því að aftur hefur myndast stífla, eins og oft hefur gerst áður, er að menn hafa einmitt verið að fækka rýmum örlítið á sama tíma og þeir hafa verið að bæta aðstöðuna. Það er ljóst að við þurfum að grípa til aðgerða til að fjölga rýmum á (Forseti hringir.) höfuðborgarsvæðinu en ég sé ekki að það muni leysast með plássunum í Snæfellsbæ þó að það sé sjálfstætt mál að ákveða hvað verður um þau.