141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

ástandið á Landspítalanum.

[11:10]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Varðandi akkúrat þessi tvö rými þá treysti ég mér ekki til að svara þessu hér. Það er búið að fara heildstætt yfir landið í tengslum við undirbúningsvinnu á yfirfærslu á málefnum aldraðra til sveitarfélaganna til að greina þörfina á hverju svæði og þegar þörfin var greind í Ólafsvík á sínum tíma, eða Snæfellsbæ, var reiknað með að þessi tíu rými mundu duga. Þetta snýst að sjálfsögðu um fjármagn, hvert rými kostar um 8–9 milljónir á ári, og það er mikil eftirspurn eftir viðbótarrýmum í kringum landið.

Kannski er erfiðasta staðan í augnablikinu á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að við komum ekki fólki út af spítalanum, eins og kom fram í upphafi máls hv. þingmanns. Það fólk er ekki tilbúið að fara hvert sem er á landinu og ekki hafa verið uppi hugmyndir um að nauðungarflytja það á staði úti um landið.

Eftir stendur að það er rétt sem hv. þingmaður segir, sveitarfélagið hefur verið að nýta þessi pláss með eigin greiðslum. Það er því miður búið að vera viðvarandi í mörg ár að sveitarfélög hafa verið að þessu á einstöku stöðum, en þetta mál verður skoðað eins og öll önnur í sambandi við það hvar við bætum við rýmum og hvernig.