141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

skattumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[11:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Lítil og meðalstór fyrirtæki skapa mikinn meiri hluta starfa í hverju landi og það á ekki hvað síst við á Íslandi þar sem yfirgnæfandi meiri hluti, líklega yfir 90%, vinnandi fólks á almennum markaði starfar hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Hagvöxtur er drifinn áfram af litlum og meðalstórum fyrirtækjum og nýja framleiðslan sem við þurfum á að halda verður til hjá slíkum fyrirtækjum sem svo vaxa og dafna. Til þess að sú geti orðið raunin þarf stefna stjórnvalda að vera til þess fallin að ýta undir stofnun og rekstur slíkra fyrirtækja, ýta undir nýsköpun. Sú hefur því miður ekki verið raunin á Íslandi undanfarin ár, þvert á móti er stöðugt verið að innleiða neikvæða hvata, það er verið að innleiða hindranir og koma í veg fyrir uppbyggingu og fjárfestingu með þeim afleiðingum að fjárfesting hefur haldist í sögulegu lágmarki á Íslandi allt þetta kjörtímabil.

Efnahagshrunið 2008 varð ekki jafnmikið á Íslandi og í Finnlandi. Í Finnlandi varð meiri samdráttur í landsframleiðslu árið 2009 en á Íslandi. Það varð samdráttur í öllum norrænu ríkjunum en öll norrænu löndin nema Ísland náðu fljótt töluverðri uppsveiflu vegna þess að eins og oft gerist eftir skarpa niðursveiflu fóru hlutirnir af stað þegar menn endurheimtu sjálfstraustið og stjórnvöld hvöttu til fjárfestingar. Mest varð uppsveiflan ekki í Noregi heldur í Svíþjóð og þeim árangri var náð með sérstakri áherslu á að gera skattumhverfi lítilla fyrirtækja til þess fallið að hvetja til ráðninga á starfsfólki og stofnunar nýrra fyrirtækja.

Hér á landi hafa menn hins vegar farið þveröfuga leið. Það er meira að segja gengið það langt að skattar á störf hafa verið hækkaðir hvað eftir annað, tryggingagjaldið. Þetta bitnar oft á tíðum sérstaklega á litlu fyrirtækjunum sem eru eðli málsins samkvæmt með langmest af kostnaði sínum í launagreiðslum á meðan stærri fyrirtæki, t.d. stóriðjufyrirtæki, eru með mjög lágt hlutfall heildarkostnaðar í launum. Þar af leiðandi bitnar þessi skattur, þessi gjaldheimta, síður á þeim. Þetta er því sérstakur skattur á lítil fyrirtæki og á störf. Við sjáum afleiðinguna í því að störfum hefur fjölgað mjög lítið, svo að segja ekki neitt, á undanförnum árum þó að dregið hafi úr atvinnuleysi með endurskilgreiningu á því og útflutningi starfa.

Við þessu þarf að bregðast og það er orðið býsna aðkallandi vegna þess að í nýjustu skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins um samkeppnishæfni landa er Ísland komið niður í 119. sæti þegar kemur að skattumhverfinu. Íslenskt skattumhverfi er orðið svo óaðgengilegt að Ísland er komið niður fyrir Haítí, Íran og Simbabve í þeim efnum. Við þær aðstæður er ekki líklegt að margir treysti sér til að fjárfesta, byggja upp ný fyrirtæki og ráða fólk.

Ég ætlaði í þessari stuttu ræðu að fara aðeins yfir reglugerðarfarganið, öll starfsleyfin og útgjöldin sem þeim fylgja sem lítil fyrirtæki standa frammi fyrir. En ég mun því miður ekki hafa tíma til þess vegna þess að ef ég ætlaði bara að lesa listann sem ég er með hérna yfir gjöld sem þarf að greiða og leyfi sem menn þurfa á að halda þegar stofna á lítið fyrirtæki tæki það miklu lengri tíma en ég á eftir af ræðunni, svoleiðis að ég verð að gera ráð fyrir því að hæstv. ráðherra þekki þann lista.

Það væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. ráðherra sé ekki sammála því að einfalda þurfi starfsumhverfi lítilla fyrirtækja, það verði að gera mönnum kleift að stofna fyrirtæki án þess að þurfa að ráða mann í heilt starf bara við það að fást við kerfið eins og nú virðist vera orðin raunin. Menn verða að geta einbeitt sér að sínu fagi í rekstri lítils fyrirtækis án þess að megnið af vinnutímanum fari í baráttu við kerfið.

Er ekki hæstv. ráðherra sammála um að sú uppbygging, sú atvinnusköpun og sú aukna framleiðsla sem við þurfum á að halda að verði til í litlum fyrirtækjum og til þess að sú getið orðið raunin verði að eiga sér stað stefnubreyting, það þurfi að einfalda skattumhverfi þessara fyrirtækja og gera mönnum kleift að stofna slík fyrirtæki á einfaldari hátt en nú er?