141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

skattumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[11:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu efni í sérstakri umræðu. Það er þarft og gott mál að skoða reglulega eftirlitskerfi og starfsumhverfi fyrirtækja á Íslandi og ég tala ekki um eins og núna þegar við erum búin að ganga í gegnum jafnmiklar breytingar og raun ber vitni. Það er rétt að gerðar hafa verið breytingar á starfsumhverfi fyrirtækja á þessu kjörtímabili en það skal þó tekið fram að þær hafa ekki nærri því allar verið til þyngingar heldur hefur ríkisstjórnin líka ráðist í mjög margar ívilnandi breytingar á skattumhverfinu til þess að örva fjárfestingar og vöxt í samfélaginu.

Til að geta rætt um réttmæti og árangur ýmissa skattbreytinga sem við höfum þurft að ráðast í á þessu kjörtímabili verðum við líka að skilja umfang verkefnisins sem blasti við. Það var náttúrlega ekkert smágat í fjárlögunum sem var hér eftir fjármálahrunið og einhvern veginn þurfti að brúa það. Fjárlagahallinn á árunum 2009–2012 var áætlaður um 350 milljarðar kr., við vorum með skuldatryggingarálag sem flaug töluvert yfir 1.000 punkta og spár um atvinnuleysi voru ógnvænlegar. Það var því alveg ljóst að grípa þurfti til einhverra aðgerða. Við þær aðstæður var það eðlilega kjarnaverkefni í endurreisn hagkerfisins að ná tökum á ríkisfjármálunum, að öðru leyti væri útséð um að ríkissjóður gæti endurgreitt skuldir sínar með tilheyrandi afleiðingum fyrir alla fjármögnunarmöguleika alls íslensks atvinnulífs.

Sú blandaða leið tekjuöflunar og niðurskurðar ríkisútgjalda sem ríkisstjórnin réðst í teljum við að hafi verið farsæl. Í breytingum á skattumhverfinu var ákveðið að fara ekki mjög hart í ákveðnar greinar heldur að reyna frekar að vera með litlar hækkanir og víða þannig að tekjuöflunarleiðirnar kæmu ekki mjög þungt niður á einstaka hópum.

Eitt mikilvægasta markmið okkar er auðvitað að viðhalda samkeppnisstöðu Íslands hvað atvinnulífið varðar og það hefur verið markmið þessarar ríkisstjórnar. Á hverju ári kannar Alþjóðabankinn hvernig það sé að reka sama fyrirtækið út frá sömu forsendum í 185 löndum og raðar þeim svo upp eftir því hversu auðvelt er að stunda viðskipti á hverjum stað. Þetta verkefni er kallað Doing Business. Þar eru eftirlits- og skattamál skoðuð auk fleiri þátta er snerta starfsumhverfi fyrirtækja. Þar er Ísland núna í 14. sæti af 185. Ef við getum gripið til líkingamáls sem við flest þekkjum úr knattspyrnunni má segja að Ísland sé svo sannarlega í úrvalsdeild og það er árangur sem við getum verið stolt af. Við erum enn í vanda vegna skulda en Ísland er þó ekki í fallhættu í úrvalsdeildinni og við erum að spila sæmilega fyrir miðja deild.

OECD ber líka saman skattgreiðslur fyrirtækja sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Árið 2011 var þetta hlutfall aðeins 1,6% hér á landi sem er afar lágt samanborið við nágrannaríki okkar. Í Noregi var þetta hlutfall í kringum 11%, um 2,8% í Danmörku og Bretlandi, þannig að öll umræða um óeðlilega skattpíningu og ofurskattlagningu íslensks atvinnulífs er því beinlínis röng og villandi.

Lítil og smærri fyrirtæki eru íslensku atvinnulífi afar mikilvæg og þar erum við hv. þingmaður hjartanlega sammála. Einhver besti mælikvarði á stöðu íslensks atvinnulífs er þó atvinnustig í landinu. Nú erum við komin með atvinnuleysið niður í rúm 5% og er það mun lægri tala en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir á árinu 2008. Könnun Samtaka atvinnulífsins meðal félagsmanna sinna gerir ráð fyrir að störfum fjölgi verulega á þessu ári.

Eins og ég nefndi áðan hafa skattbreytingarnar ekki eingöngu verið til þyngingar, verið til hækkana, heldur höfum við ráðist í verulegar ívilnandi aðgerðir á þessu kjörtímabili. Ber þar fyrst að nefna rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga hér á landi. Vel á annan tug verkefna hefur fengið fjárfestingarsamning í gegnum þá lagasetningu. Í öðru lagi hafa lög um endurgreiðslu skatta vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar verið lyftistöng fyrir mjög mörg fyrirtæki úti um allt land. Í þriðja lagi vil ég líka nefna að hvatning til fjármögnunar nýsköpunarfyrirtækja í gegnum skattafslátt vegna hlutabréfakaupa eru í vinnslu í fjármálaráðuneytinu eftir athugasemdir ESA við fyrri útfærslur.

Þá má nefna verkefnið Allir vinna og einnig verðum við að nefna 20% endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar sem hefur aldeilis skapað hreyfingu í samfélaginu og laðað að stór erlend verkefni. Tryggingagjaldið, af því að hv. þingmaður minntist á það, lækkar um 0,1% á þessu ári, þannig að leiðangurinn til lækkunar á tryggingagjaldinu er hafinn. Þá eru ónefndir allir þeir sjóðir sem við höfum aukið töluvert í, upp á fleiri milljarða, til að stuðla að vexti í hinum skapandi greinum og í nýsköpunargeiranum. Þarna nefni ég Tækniþróunarsjóð, Kvikmyndasjóð, Rannsóknasjóð og Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Allt stuðlar þetta að því að hér geti orðið vöxtur í samfélaginu og verkefni geti farið af stað.