141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

skattumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[11:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp. Staðreyndin er nefnilega sú að íslenskt efnahagslíf byggir á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, þaðan kemur drifkrafturinn. Eitt af því sem við höfum ekki rætt hér, með ákveðnum undantekningum þó, ég held að ég hafi tekið þetta tvisvar upp í sérstakri umræðu í upphafi þessa kjörtímabils, er hvaða skilaboð við erum að gefa til minni fyrirtækja og til atvinnulífsins almennt. Skilaboðin sem við gáfum með því hvernig við fórum með skuldir fyrirtækja og endurvakningu fyrirtækja voru þau að ráðdeild, sparsemi og skynsemi borguðu sig ekki. Það voru ekki allir yfirskuldsettir, það voru ekki allir sem flugu hér með himinskautum fyrir hrun, en þeim var refsað. Þeir máttu keppa við þessi fyrirtæki fyrir hrun og það var mjög ójöfn samkeppni. Eftir hrun, þegar þessir aðilar héldu kannski að þeir mundu uppskera fyrir að hafa verið skynsamir fengu þessi sömu fyrirtæki, oft í eigu banka og lífeyrissjóða, fyrirgreiðslu. Ef það var erfitt að keppa við þau fyrir hrun varð það nokkurn veginn ómögulegt eftir hrun.

Í ofanálag, virðulegi forseti, hefur skattstefnan miðað að því að fækka störfum. Á skattadegi Deloitte 10. janúar síðastliðinn flutti Sigurjón M. Egilsson, smáatvinnurekandi, ræðu og tók dæmi af sínu fyrirtæki. Hann og kona hans voru í vinnu með 370 þús. kr. í mánaðarlaun. Tryggingagjaldið var hækkað úr 475 þús. kr. á ári í 770 þús. kr. Ef maður er með lítinn atvinnurekstur sem byggir á mannaflsfrekri starfsemi er þessi skattstefna til þess gerð að drepa niður nýsköpun og atvinnustarfsemi. Í ofanálag voru þau vinnumarkaðsúrræði sem menn hreykja sér af ekki fyrir lítil fyrirtæki, virðulegi forseti. Ef þau eru of lítil mega þau ekki ráða inn atvinnulaust fólk. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þetta er ein af ástæðunum og kannski stærsta ástæðan fyrir því að við höfum ekki náð sama árangri og aðrar þjóðir. Við horfum upp á hvorki meira (Forseti hringir.) né minna en alla íbúa Grafarholts farna til útlanda. Frá árinu 2008, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) hafa fimm einstaklingar flutt til annarra landa á hverjum einasta degi.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörk sem eru tvær mínútur í þessari umræðu.)