141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

skattumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[11:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað bábilja að hér hafi verið rekin sú stefna á undanförnum áratugum að ýta bara undir rekstur stórra fyrirtækja. Það sést best á því hversu mikið vægi lítil og meðalstór fyrirtæki hafa í íslensku atvinnulífi þar sem þau eru burðarásinn. Stefnan sem hér er alltaf talað um sem stóriðjustefnu stenst enga skoðun. Það er ekki síst samspil þessara stóru og öflugu fyrirtækja sem skapar tækifæri fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Þetta höfum við oft séð gerast í sjávarútvegi og í kringum orkufrekan iðnað. Þar hefur ein helsta nýsköpunin orðið í íslensku atvinnulífi, og verður.

Okkar vandamál er lítil fjárfesting, sú minnsta sem um getur á lýðveldistímanum, 13–14% til móts við um 20% sl. áratugi. Það þýðir enginn vöxtur og engin fjölgun starfa. Þetta er engin tilviljun. Það að við skulum ekki hafa tekið við okkur á þessum fjórum árum sem eru liðin frá því að núverandi ríkisstjórn tók við er engin tilviljun. Stefna þessarar ríkisstjórnar ræður þar mestu. Það er því hlálegt að heyra hæstv. ráðherra halda því fram að ýmislegt jákvætt hafi verið gert, m.a. í skattalegu umhverfi og í hvötum til fjárfestinga þegar fjárfestingar hér eru í algjöru lágmarki, og að Ísland spili í einhverri úrvalsdeild.

Störfum er ekki að fjölga í landinu, þeim er enn að fækka. Það er vandamál okkar vegna þess að engin fjárfesting á sér stað. Það mikilvægasta gagnvart því er stöðugleiki í skattalegu umhverfi og pólitískur stöðugleiki en það er ekki fyrir hendi hér. Við sáum eitt helsta tækifærið til að stíga alvöruskref áfram og laða hingað erlenda fjárfestingu fara frá okkur um daginn við afgreiðslu rammaáætlunar sem stoppar vöxt í þeim geira sem helst er horft til til þess að laða (Forseti hringir.) beina erlenda fjárfestingu til landsins, sem er okkur algjörlega nauðsynleg til að styrkja við rekstur lítilla (Forseti hringir.) og meðalstórra fyrirtækja og auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi.