141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

skattumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[11:39]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Sem betur fer eru þeir til sem sjá heiminn með öðrum augum en síðasti ræðumaður reyndi að teikna upp fyrir okkur. Þar á meðal eru Samtök sprotafyrirtækja hér á landi sem sendu frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu vegna lagabreytinga á skattumhverfi fyrirtækja þeirra, með leyfi forseta:

„Endurgreiðsla 20% af rannsóknar- og þróunarkostnaði nýsköpunarverkefna skiptir miklu máli fyrir íslensk sprotafyrirtæki. SSP lýsir yfir mikilli ánægju með þennan stuðning sem íslenska ríkið veitir sprotafyrirtækjum og nýsköpun á Íslandi. Fullyrða má að þessi stuðningur mun hafa góð áhrif á þróunarstarf og áframhaldandi vöxt fyrirtækjanna hér á landi og spornar við brotthvarfi fólks og fyrirtækja frá landinu.“ (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þetta er yfirlýsing þeirra sem málið varðar og sjá heiminn í því ljósi sem þau starfa í.

Nokkrar staðreyndir: Fimm OECD-ríki eru með lægra skatthlutfall en Ísland — fimm ríki. Þeir sem tala um að lækka skatta á fyrirtæki aftur niður í það sem þeir voru hér á svokölluðum góðæristíma eru að tala um að fara niður fyrir þessi fimm ríki, vera lægst í heimi. Hvernig skilaði skattur af fyrirtækjum sér í ríkissjóð samanborið við önnur lönd? Þar vorum við í fjórða neðsta sæti með lága tekjuskattinn á fyrirtæki. Við vorum ekki einu sinni samanburðarhæf. Alls staðar annars staðar á Norðurlöndum er tekjuskattur á fyrirtæki fjórðungi og upp í nærri 50% hærri en á Íslandi. Það gengur bara býsna vel þar, sérstaklega við að byggja upp lítil og meðalstór fyrirtæki.

Erlend fjárfesting, staðreynd: Erlend fjárfesting sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á Íslandi var um og innan við 1% lengst af í sögunni með einni óþægilegri undantekningu fyrir ekkert of mörgum árum sem hafði sín áhrif. Hvar var erlend fjárfesting á Íslandi? Í litlum og meðalstórum fyrirtækjum? Nei, hún var ekki þar. Það var engin eftirspurn af erlendum aðilum (Forseti hringir.) að komast í lítil og meðalstór fyrirtæki. Það gæti þó ekki verið vegna þess að umhverfið þar var ekki nógu hagstætt.