141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta frumvarp var meginefnið hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í allan fyrravetur. Þar kom fjöldi fræðimanna og var farið gaumgæfilega í hinar ýmsu greinar. Það komu ummæli um að frestur til umsagna í desember væri of stuttur og allir þeir sem komu þar að máli fengu strax að vita að ef fólk treysti sér ekki til að svara innan tilsetts tíma mundi það gera það við fyrsta tækifæri. Samband íslenskra sveitarfélaga skilaði ítarlegri umsögn í fyrra og annarri núna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hefur hann ekki lesið breytingartillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem kemur frá utanríkismálanefnd um 111. gr. og framsal ríkisvalds?