141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að í þeirri breytingartillögu er ekki talað um verulegt eða óverulegt framsal og síðasta málsgrein hennar tekur af allan vafa um að þegar samningur um aðild að Evrópusambandinu liggur fyrir verði hann borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Það er enginn vafi þar á.

Ég vil líka vekja athygli á því sem hv. þingmaður kom þó inn á en nokkru af því sem hann gagnrýndi hefur þegar verið breytt með breytingartillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, svo sem eins og um eignarréttinn og félagafrelsið. Ég vil líka segja að mér finnst skrýtið að það sé óskýrt fyrir lögfræðinga eða dómara þegar talað er um að eitthvert orðalag sé ekki efnisbreyting, það séu notuð nútímalegri orð, nútímalegri framsetning (Forseti hringir.) og það sé ekki efnisbreyting. Ég skil ekki alveg af hverju það ætti að þvælast fyrir dómurum.