141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir ágæta yfirferð yfir frumvarpið, reyndar alls ekki yfir það allt enda er ekki við því að búast.

Hann nefndi hérna 39. gr. og ræddi um að kosningalögunum yrði væntanlega breytt í þágu þeirra flokka sem eru með stjórnarmeirihluta og það finnst mér góð framtíð fyrir Sjálfstæðisflokkinn. En hann ræddi ekki um breytingar á stjórnarskránni sjálfri, 113. gr., sem verða afskaplega auðveldar. Það þarf einfaldan meiri hluta á Alþingi til að breyta til dæmis kosningalögum og það er stjórnarmeirihlutinn sem getur breytt því, með 35 eða 40 þingmönnum eða einhverju slíku. Síðan fer það í kosningu hjá kjósendum og þar þarf einfaldan meiri hluta. Þetta verður mjög lipurt. Óttast hv. þingmaður ekki að stjórnarskránni verði breytt einu sinni, tvisvar á kjörtímabili eða jafnvel árlega?