141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég taldi mig vita það og þá bíð ég eftir tillögum til áréttingar þeirri skoðun hv. þingmanns.

Ég vil aðeins vekja athygli á því sem segir í áliti hv. þingmanns um 32. gr. í ljósi þess að hér hefur verið vísað til orða fræðimanna og sérstaklega til trúnaðarmanns Alþingis, umboðsmanns Alþingis. Í áliti þingmannsins segir:

„Eigi greinin að taka til dýrmætra þjóðareigna í einkaeign …“

Það sem er í einkaeign getur ekki verið þjóðareign fyrr en viðkomandi hefur afsalað sér eignarréttinum, annaðhvort með gjöf, sölu eða arfi, þannig er nú það. Þessari grein er alls ekki ætlað að taka til bókasafns í einkaeigu, eins og rætt var fjálglega á fundum hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Það er einn allsherjarmisskilningur og því miður hafa fjölmargir fræðimenn dottið ofan í þann pytt og þeirra á meðal umboðsmaður Alþingis, sem er leitt að þurfa að segja. Þarna rugla menn saman tveimur hugtökum, þjóðarverðmæti (Forseti hringir.) annars vegar, sem er að finna í nýjum lögum frá 2012 um menningarminjar, og þjóðareigninni sem þar er og sumir segjast ekki vita lengur hvað þýði.