141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lúðvík Geirssyni fyrir ágæta ræðu, sérstaklega seinni hlutann. Hann var dálítið önugur í fyrri hlutanum en batnaði.

Það sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um var í fyrsta lagi aðkoma Feneyjanefndarinnar. Nú er hún hvergi í þingskjölum en ég fann hana á heimasíðunni, bréf til Feneyjanefndar, og þar stendur að hún eigi að skoða eitt stykki stjórnarskrá. Það var fyrsta verkefnið. Því vil ég spyrja: Er ekki ástæða til að bíða eftir skoðunum hennar á flestum atriðum, eins og eignarréttinum sem hv. nefnd er að breyta sínum hugmyndum í, þ.e. að eignarréttinum fylgi skyldur, sérstaklega auðlindaákvæðinu sem er nýmæli í heiminum? Ég hugsa að Feneyjanefndin hefði mikinn áhuga á því. Væri ekki betra að bíða eftir umsögn hennar?

Síðan lagði ég fram tillögu 27. febrúar sl. til hv. nefndar. Ég fullyrði, herra forseti, að enginn hefur lesið hana. Þar talaði ég til dæmis um Lögréttu og það er ekki tekið neitt mið af þeim tillögum sem ég kom með þar.