141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:15]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að þingmenn hafi sínar skoðanir á ýmsum þáttum og áhersluatriði í þessu, eins og hv. þm. Pétur Blöndal talar mikið um Lögréttu. Ég lít svo á að umræðan í þingsal sé vettvangur til að koma áherslum og sjónarmiðum á framfæri til að ýta undir slíka þætti. Þeir hafa kannski ekki allir fengið þá yfirferð og umfjöllun og vigt í umræðunni sem menn hafa óskað eftir í nefndum. Tækifærið er í þessari ítarlegu 2. umr. og rétt að vekja athygli á því að við höfum lagt áherslu á að 3. umr. verði engin málamyndaumræða í þessu máli, heldur verði hún líka ítarleg. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur einmitt tækifæri til að koma þá fram með frekari efnislegar breytingar og tillögur inn í 3. umr. eftir þá yfirferð sem við fáum hér og þær umsagnir og annað innlegg sem kemur meðal annars frá Feneyjanefndinni. Það er það sem skiptir máli.