141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:20]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Staðreyndin er sú að þingnefndirnar fengu í raun og veru þann tíma sem þær þurftu. Það er rétt að athugasemdir komu fram við það á aðventu að sá tími væri naumur. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og formaður hennar brást strax við því og sagði að nefndir og aðrir aðilar fengju þann tíma sem þeir teldu sig þurfa til að geta komið athugasemdum sínum og ábendingum á framfæri. Við vorum að fá umsagnir frá þingnefndum vel fram yfir miðjan janúarmánuð.

Það sem mér hins vegar finnst skorta úr þeim ágætu umsögnum sem komu fram, meðal annars frá minni hluta þeirra nefnda sem komu fram með sérálit, til að mynda í atvinnuveganefnd, er að fram kæmu skýrar og ákveðnar breytingartillögur við þau ákvæði sem menn gerðu athugasemdir við. Ég hef ekki séð þær birtast.

Vakin hefur verið athygli á að skoða þurfi ýmsa þætti betur, við erum sammála um það, til að mynda 34. gr., varðandi auðlindaákvæðið. Þar eru ákveðnir þættir, til dæmis orðalagið „fullt gjald“ og annað slíkt sem við skiljum eftir opið fyrir umræðuna til þess einmitt að geta haldið (Forseti hringir.) henni áfram í þingsalnum og að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi þá tækifæri til þess að vinna frekar úr því máli.