141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:32]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Mig langar að beina sjónum mínum að mannréttindakafla þessara tillagna og þess þáttar nefndarálits okkar hv. þm. Birgis Ármannssonar sem snýr að þeim kafla. Áður en ég hef þann meginþátt ræðu minnar langar mig þó að koma inn á nokkur atriði þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað. Sér í lagi langar mig til að ræða orð hv. þm. Lúðvíks Geirssonar um að það væri gagnlegt að ná samkomulagi en ekki alltaf hægt. Hann nefndi það vegna kosningalöggjafarinnar, að þar væri brýnt að ná samkomulagi og að ekki væri útilokað að svo yrði þegar kosningalögum yrði breytt á grundvelli þessara tillagna sem hér liggja fyrir og eru vægast sagt óljósar. Mig langar af því tilefni að beina sjónum okkar að því hvernig við gætum hugsanlega breytt stjórnarskránni til að ná fram meiri samstöðu í þingsalnum um slíkar breytingar.

Við sjálfstæðismenn höfum allan tímann sagt að ekki sé hægt að fara í breytingar á stjórnarskipun landsins án þess að það sé gert að mjög yfirveguðu ráði. Menn byrja á því að kanna hvað það er sem þarf að breyta og menn þurfa að halda sig við það sem hefur verið lengst af við lýði á Alþingi, að leita þverpólitískrar sáttar um það hvaða breytingar skal fara í.

Virðulegi forseti. Nú þarf ekkert að orðlengja það og ég ætla ekki að nýta þennan ræðutíma minn í að fara yfir forsögu þessa máls í löngu máli heldur langar mig til að einbeita mér að því málefni sem er fyrir framan okkur núna. Ég vil þó segja að það sem hefur einkennt þetta ferli alveg frá 2009, í þeirri miklu ólgu sem hér var eftir stjórnarskipti, og ný ríkisstjórn, minnihlutastjórn, tók við er að hún hafði það mjög ákveðið á sinni stefnuskrá að breyta tilteknum þáttum stjórnarskrárinnar. Reyndar átti að breyta tilteknum þáttum stjórnarskrárinnar í aðdraganda alþingiskosninga en síðan átti einnig að kjósa til stjórnlagaþings. Það lá að sjálfsögðu fyrir þá að Sjálfstæðisflokkurinn var andsnúinn þessum hugmyndum og var þá einn flokka á Alþingi með aðra skoðun á þessum málum. Hann hélt sig við þá stefnu sem hann hefur ávallt haft, að menn skyldu reyna að ná breiðri sátt.

Síðan hefur þetta mál verið þannig að nánast á hverju stigi þess hefur verið mikill ágreiningur. Þó má segja að á tilteknu tímabili í vinnu allsherjarnefndar náðist samkomulag meðal allra flokka í nefndinni um tiltekið vinnulag vegna þjóðfundar og fleiri atriða af því tagi. Það náðist. Við skulum hafa það í huga, en meginþemað í allri þessari vinnu hefur verið ágreiningur og, ég verð að segja alveg eins og er, töluverður asi í því að það þurfi að koma svo umfangsmiklum breytingum í gegn. Þá vaknar spurningin: Eigum við bara að sætta okkur við það? Eigum við að hafa það þannig að framvegis sé hætta á því að stjórnlögum landsins verði breytt með minnsta mögulega þingmeirihluta? Finnst okkur það eðlilegur framgangur?

Viljum við að umfangsmiklar breytingar í hinar ýmsustu áttir geti átt sér stað? Við getum séð fyrir okkur alls konar annað ríkisstjórnarmunstur. Viljum við þá að stjórnlögum sé aftur breytt? Við skulum átta okkur á því að í tillögum stjórnlagaráðs er einungis gert ráð fyrir því, þegar talað er um mannréttindakaflann, að fara eigi eftir núgildandi stjórnarskrá um það hvernig henni skuli breyta, að tvö þing þurfi til. Annars dugar eitt þing til að breyta stjórnarskránni. Það getur alveg farið svo að stjórnarskránni verði miklu tíðara breytt. Hún verði miklu meira pólitískt þrætuepli en hún er núna og við getum verið að horfa upp á að á komandi árum verði viðvarandi ágreiningur um stjórnskipunarþætti okkar ágæta lands.

Ég get ekki sætt mig við þetta. Það er svo sem alveg vitað mál að þetta er mitt síðasta þing hér og mér þætti mjög dapurlegt ef það síðasta sem gerðist hér á meðan ég sit yrði að stjórnarskránni yrði breytt þannig að við hefjum nýjan kafla í breytingum á stjórnarskrá sem geti orðið miklu pólitískari en áður hefur verið, af því að menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé sjálfsagt að beita meirihlutavaldi. Við getum hins vegar breytt stjórnarskránni núna til að þvinga Alþingi til þess að ná betri samstöðu. Við þingmenn getum ákveðið að það sé verkefnið sem þetta þing ætti að enda á, að þvinga Alþingi til að vinna betur saman og reyna þannig að koma í veg fyrir að stórfengleg átakamál verði á nánast hverju einasta þingi. Þetta kjörtímabil hefur að sjálfsögðu verið mjög stórviðrasamt en það má alveg hugsa sér að til þess að ná samstöðu í breytingum á stjórnarskránni ákveði stjórnarskrárgjafi sjálfur að aukinn meiri hluta þurfi til. Það þurfi hreinlega aukinn meiri hluta á Alþingi og þá er sú skylda lögð á þá sem fara með völd hverju sinni að tala við minni hluta þingsins um þær breytingar. Ég tel að þetta sé nokkuð sem væri vert fyrir okkur að hugleiða. Ég held að það væri ágætt fyrir okkur að ræða þetta hér í þessari umræðu, hvort kannski sé heppilegt og gott fyrir það Alþingi sem nú situr að koma sér saman um slíkar breytingar. Þetta vil ég benda á á þessu stigi umræðunnar og eftir því sem ég hef hugleitt þetta meira undanfarið þá er ég hrifnari af því. Mér finnst þetta vera það sem réttast væri að gera á þessu stigi.

Nú vil ég fjalla nokkuð um mannréttindaþátt málsins. Það hefur margoft komið fram og er mönnum kunnugt að mannréttindakafli núgildandi stjórnarskrár kom inn í hana árið 1995 að mjög vel yfirlögðu ráði eftir mikla vinnu, margra ára undirbúning og svo framvegis. Ég hygg að núverandi prófessor í stjórnskipunarrétti, Björg Thorarensen, sem er einn þeirra sérfræðinga sem hefur sent inn umsagnir og komið að vinnslu þessa máls, þekkir þá sögu hvað best allra hér í landi. Það er nefnilega þannig að þó að meiri hlutinn segi að skiptar skoðanir séu um frumvarpið og að það sé kannski ekkert skrýtið að menn séu ósammála um hluti kann að vera að það skipti máli hverjir eru ósammála. Þegar það eru hverjir á fætur öðrum sérfræðingar í stjórnskipunarrétti þá hefði maður haldið að álit þeirra skipti einhverju máli og að ástæða væri til að taka einhverjar af breytingartillögum þeirra upp í þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur til. Maður hefði haldið að einhver þeirra væri nokkurn veginn nothæf, en það fer mjög lítið fyrir því.

Þegar þetta mál var til umfjöllunar í gömlu allsherjarnefndinni og þegar meiri hlutinn var að undirbúa þetta mál til þjóðfundar stjórnlaganefndar og síðan til stjórnlagaþings var það ekki álitið meginverkefni þeirra aðila að ræða breytingar á mannréttindakaflanum. Hvers vegna? Af því að um hann hafði ekki staðið styr. Menn hafa heilt yfir verið nokkuð ánægðir með mannréttindakaflann eins og hann hefur verið. Í vinnu stjórnlaganefndar var ekki fjallað um hann sérstaklega. Ég hefði haldið að af hálfu stjórnlagaráðs þyrfti sérstaklega sterk rök fyrir því að fara í breytingar á kaflanum. Ég hefði haldið að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefði þá líka þurft að meta hvort virkilega væri þörf á að skrifa kaflann algjörlega upp á nýtt. Þeirri spurningu er ósvarað í mínum huga, af hverju það var gert.

Ég er enn þeirrar skoðunar að miklu betra hefði verið að menn kæmu sér saman um hverju þyrfti að breyta. Í mínum huga var það ekki á sviði mannréttindakaflans. Ég hef sjálf verið þeirrar skoðunar að nær væri að ræða embætti forseta Íslands, þjóðaratkvæðagreiðslur og auðlindaákvæði.

Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur í gær, auðlindaákvæðið hefur verið mjög mikið til umræðu innan allra flokka mörg undanfarin ár. Það eru meira að segja til tillögur frá okkur sjálfstæðismönnum í þá veru að setja inn ákvæði um auðlindamál. Það má hins vegar ekki orða það hvernig sem er. Það er ekki hægt að ákveða í upphafinu að ekki sé hægt að ná um það samstöðu.

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða lögskýringargögnin. Greinargerðin sem fylgir frumvarpinu hefur verið, eins og við þekkjum, afar mikið gagnrýnd og af hálfu fjölmargra umsagnaraðila. Það hafa verið gerðar gríðarlegar athugasemdir við greinargerðina, hún hefur verið talin takmörkuð, óskýr, skýringar misvísandi og stundum hafa umsagnaraðilar hreinlega talið hana ónothæfa. Ég kalla eftir því að meiri hluti nefndarinnar segi frá því hvernig hann hyggist bregðast við þessari gagnrýni. Nú vitum við auðvitað að lögskýringargögn eru meira en greinargerð, þau eru líka nefndarálit og önnur þingskjöl. Það nefndarálit sem nú liggur fyrir af hálfu meiri hluta nefndarinnar er ekki það lögskýringargagn sem hér er kallað eftir. Hvenær sjáum við það og hvað ætlar meiri hlutinn að gera til að bregðast við þessari miklu gagnrýni sem komið hefur fram á greinargerð frumvarpsins og gildi hennar sem lögskýringargagns?

Hvernig rímar þessi óljósa greinargerð við þá skoðun hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur sem fram kom þegar hún greindi frá nefndaráliti meiri hlutans í gær, að það geti ekki verið að dómstólar ættu að lenda í svo miklum erfiðleikum með að túlka lögin af því að þau væru nokkuð skýr? Um það eru afar skiptar skoðanir. Flestir fræðimenn okkar á sviði lögfræði telja þvert á móti að hér sé verulegur túlkunarvafi þegar kemur að þessum ákvæðum. Þegar til viðbótar kemur að greinargerðin er talin svona óskýr hljótum við að bíða frekari lögskýringargagna. Það hlýtur að vera meiri hlutans að svara því hvernig hann ætli að svara þessu kalli. Ef það nefndarálit kemur síðan með frekari vafa, þ.e. ef lögskýringargögnin tala í ólíkar áttir, verður auðvitað verkefni dómstóla að dæma samkvæmt orðanna hljóðan.

Það er þá sem ég hygg að dómstólar muni hafa mjög mikið svigrúm til að túlka þessi stjórnarskrárákvæði. Þess vegna held ég að því sé ekki andmælt að veruleg réttaróvissa kunni að vera fram undan nái þessi ákvæði fram að ganga. Það kann vel að vera að afstaða manna sé, eins og hér hefur komið fram, að ekkert sé skrýtið að svo sé. Það sé eðlilegt þegar ný löggjöf taki gildi að menn þurfi að fara með hana fyrir dóm og dæma eftir henni. Það er svo sem kunnugt þegar um löggjöf er að ræða en þetta er dálítið umfangsmikil og mikilvæg löggjöf og það er galli að þessi gagnrýni liggi fyrir í vinnslu málsins og að á hana eigi ekki að hlusta svo neinu marki nemi.

Ég vil líka nefna það hér vegna lögskýringargagna og nefndarálits meiri hlutans að afstaða meiri hluta nefndarinnar var að afgreiða málið til 2. umr. án þess að bíða eftir áliti Feneyjanefndarinnar. Ég veit ekki hvenær álitið liggur fyrir, en ég hygg að formaður nefndarinnar muni greina okkur frá því strax og hún fær um það vitneskju. Það liggur fyrir að þess álits mun ekki sjá stað í skjölum þingsins fyrir 3. umr. Í gögnum hér í Alþingi mun þess ekki sjá stað fyrr en í 3. umr. þegar framhaldsnefndarálit meiri hlutans verður gefið út, væntanlega með þeim athugasemdum og breytingartillögum sem felast hjá Feneyjanefndinni, hvernig sem þær kunna nú að vera sem ég auðvitað veit ekki.

Í nefndaráliti meiri hlutans fyrir 2. umr. er ekki fjallað um þann mikilvæga þátt sem stjórnskipunin er. Auðvitað getum við hér í þingsal gert það sem okkur sýnist. Við getum rætt einstaka þætti sem varða stjórnskipunina í þessari umræðu, ég hyggst gera það, en þeim hefur hálfpartinn verið vísað frá í bili. Umræðan hefur verið sett í biðflokk á meðan niðurstöðu Feneyjanefndarinnar er beðið. Ég held á hinn bóginn að við ættum að draga hér fram þá ágalla sem nefndir hafa verið vegna stjórnskipunarinnar og ég verð að segja það hér í þessum stól, ég hef sagt það áður og mér finnst það skipta máli, að auðvitað er það athugunarefni þegar forseti lýðveldisins hefur komist að þeirri niðurstöðu að þessar tillögur gefi honum óskaplega mikið svigrúm til að túlka hlutina eftir sínu höfði. Ég er ekki sátt við það, ég veit ekki hvort meiri hluti Alþingis er mjög sáttur við að eftir kosningar geti forseti lýðveldisins í krafti einhverra breytinga farið að túlka þetta eftir sínu höfði. Hvernig verður það þegar um stjórnarmyndun er að ræða? Hvernig ætlar forsetinn að líta á það allt saman? Auðvitað eigum við aldrei að líta á stjórnarskrá eða slíka þætti út frá persónu, en meðan menn sitja í ákveðnum embættum og hafa sínar persónulegu skoðanir og lýsa þeim eins og herra Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði, hefur gert héðan úr þessum stól, meira að segja við þingsetninguna hygg ég 2011, þá held ég að það sé alveg einnar messu virði að fara yfir það hvort túlkun hans standist. Það er alveg rétt að á hana hefur komið gagnrýni en það hefur líka komið fram hjá virtum aðilum í þessu samfélagi að hann hafi töluvert til síns máls. Við getum ekki afgreitt stjórnarskrána hér með slíkan vafa undir. Það kemur ekki til greina. Forsetaembættið er eitt af því sem ég persónulega hef alltaf litið á sem efni til breytinga á í stjórnarskránni.

Fram að þessu hefur það verið eitt af þeim atriðum sem margir flokkar hafa nefnt og í síðustu endurskoðun stjórnarskrárinnar áður en þessi byrjaði var það, hygg ég, Samfylkingin sem var mest á móti því að gerð yrði breyting á embætti forseta Íslands. Þessu hefur ekki verið svarað í tillögunum og ég kalla eftir því að það verði gert. Ég vil vera sanngjörn og segja að auðvitað getur ýmislegt komið fram í tillögum Feneyjanefndarinnar en ég kalla þá eftir því að þeir sem bera málið uppi taki líka þátt í þeirri umræðu sem varðar embætti forseta Íslands.

Annað vil ég líka nefna fyrst ég fór inn á þessar brautir. Það er alltaf vandasamt að ræða mál sem er svona umfangsmikið. Jafnvel þótt hér sé tvöfaldur ræðutími er þetta mál slíkt að vöxtum að tíminn líður ansi hratt. Nefndarálit okkar sjálfstæðismanna, sem ég er ekki enn þá komin í þótt ég hafi ætlað að verja mínum tíma í það, er einnig töluvert umfangsmikið. Ég vil einnig benda á eitt sem ég hygg að við þurfum að taka til umræðu og það er ábyrgð ráðherra og sú hugsun að ráðherra sé á ákveðinn hátt bundinn ríkisstjórn í því að framfylgja sínum embættisfærslum en engu að síður ber hann ábyrgð, um leið og hann er einhvern veginn ekki með ábyrgðina. Þetta er mjög ruglingslegt, það er eiginlega dálítið erfitt að útskýra þetta. Það er auðvitað alveg ófært að þegar við erum að tala um ráðherra í ríkisstjórn sem fara með mikilvæg mál fyrir borgarana í landinu þá liggi ekki fyrir hvernig ábyrgðinni er háttað. Það gæti verið þannig að ráðherra sem vill koma ákveðnu máli í gegn geti það ekki vegna einhverra aðstæðna í ríkisstjórn, en er engu að síður ábyrgur fyrir því að hafa ekki getað gert það. Þetta hefur verið rætt lítillega í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ég veit að ég er ekki ein um að velta þessu fyrir mér. Það hefur ekkert að gera með meiri hluta eða minni hluta, ég veit að fleirum finnst að þarna sé atriði sem við verðum að skoða nánar. Það eru einnig fleiri atriði, að sjálfsögðu, eins og samspil þjóðaratkvæðagreiðslu og frumkvæðisréttur, alls kyns slíkir þættir og ég mun taka á þeim eftir því sem þessari umræðu vindur fram. Það er ómögulegt að fara í nema afmarkaða þætti en mér finnst brýnt í ljósi umræðunnar og vegna tímans að ég komi inn á tiltekna þætti úr nefndaráliti okkar og eins og ég segi þá eru það mannréttindaákvæðin.

Björg Thorarensen prófessor hefur á öllum stigum málsins komið fyrir nefndina, hún hefur komið fyrir nefndina nokkuð oft og hún hefur skilað umsögn, bæði hefur hún komið til okkar, einnig kom hún fyrir þær þingnefndir sem óskað var eftir að tækju málið til umfjöllunar.

Ég er þakklát Björgu Thorarensen fyrir að hafa sent inn umsögn þó að tími til þess hafi verið allt of knappur. Ég er henni og öðrum fræðimönnum þakklát fyrir að hafa gert það. Ég veit að það var dálítið mismunandi innan þingnefnda hvernig stjórn nefndanna leit á þessa tímafresti en það er alveg ljóst að afskaplega mikilvægt hefur reynst að fá þá umsögn fram.

Ég vil einnig nefna umsögn frá Skúla Magnússyni og Ágústi Þór Árnasyni. Þeir voru báðir í stjórnlaganefndinni. Mér finnst stjórnlaganefndin og sú mikla skýrsla sem þar er að baki alls ekki hafa verið nýtt nógu mikið í þessu máli. Það er margt í þeirra tillögum sem ég vildi gjarnan gera að mínum. Það voru reyndar fleiri en ein tillaga því að þar var komið með a- og b-lið, mér fannst það skynsamlegt af þeirra hálfu. Það var umræðugrundvöllur fyrir menn og ég sakna þess að við skyldum ekki hafa tekið meira til athugunar þá miklu vinnu sem þar fór fram. Ég vil nefna þá einstaklinga sérstaklega því að þeir sendu Alþingi síðan viðamikla umsögn um þetta mál.

Umboðsmaður Alþingis sendi núna á síðustu stigum málsins gríðarlega greinargóða umsögn en mér þykir ekki hafa verið nógu mikið undir tillögur hans tekið. Í krafti bjartsýni minnar ætla ég að vonast til þess að meiri hlutinn reyni að gera annars konar bragarbót á því fyrir 3. umr.

Það er tekið fram í umsögn okkar og ég vil benda sérstaklega á það að löndin í kringum okkur hafa haft töluvert annan hátt á við breytingar á stjórnarskrá en við gerum hér nú. Við bendum á að þegar við lítum til dæmis til Noregs, sem við Íslendingar gerum oft, bæði þegar litið er til löggjafar og eins höfum við litið til Noregs í mörgu tilliti núna undangengin ár, þá liggur fyrir að endurskoðun Norðmanna á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar hefur verið í nefnd sem hefur staðið fyrir undirbúningi þeirra breytinga í mörg ár. Þrátt fyrir að þessi nefnd hafi verið að störfum allan þennan tíma er ekkert vont við það, herra forseti. Það er ekkert endilega betra og það á ekki að vera tilgangur okkar í Alþingi að vinna hlutina hratt. Ég er sammála því að oft er hægt að vinna hlutina hratt og vel, en stundum er betra að þeir gerist hægt. Það er betra fyrir málið og fyrir umræðuna að hlutirnir gerist hægt og menn íhugi hvern áfanga. Það er bjargföst skoðun mín að þegar kemur að stjórnarskrá lands eigi í fyrsta lagi að vera nokkuð flókið að breyta henni og það sé eðlilegt að slíkar breytingar taki tíma.

Þá vil ég enn og aftur benda á það sem ég sagði í upphafi: Ég held að við eigum að gera þá breytingu að krefjast aukins meiri hluta til að breyta stjórnarskránni.

Ég er ánægð með hvernig Norðmenn hafa gert þetta núna, í rólegheitum. Þrátt fyrir þessar miklu umræður sem voru í nefndinni héldu umræður um einstök atriði áfram og fagleg rök komu fram um að þeim þyrfti að breyta. Slíkt er enda eðlilegt í svo stóru máli sem hér um ræðir. Að sama skapi er mikilvægt að hlusta á slík fagleg rök, vega þau og meta. Afstaða meiri hlutans í þessu máli virðist helst vera sú að engu megi breyta frá tillögu stjórnlagaráðs, þrátt fyrir að sérfræðingar séu sammála um nauðsyn breytinga.

Þá kemur að því sem oft hefur verið rætt hér, ég hef heyrt í dag og heyrði í gær og hef heyrt oft, að Alþingi hafi ekkert leyfi til að breyta neinu, Alþingi sé bundið í þessu máli, það sé búið að binda Alþingi. Ég fellst ekki á að hægt sé að binda stjórnarskrárgjafann sjálfan með þeim hætti áður en umræða hefst um málið á Alþingi.

Lítum hins vegar á hvað það er sem menn telja að búið sé að binda hann á. Hvað er það? Í umræðunum í haust eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna, þegar vinna sérfræðingahópsins var í gangi, þá sagði hæstv. forsætisráðherra úr þessum stól að breytingar yrðu gerðar á frumvarpinu á grundvelli sérfræðingahópsins og frumvarp yrði lagt fram fljótlega í þeirri mynd. Það var gert, en það sem hefur gerst síðan er að mörgum tillögum sérfræðingahópsins hefur verið hafnað í vinnu nefndarinnar eftir 1. umr. og horfið til baka til upphaflegrar tillögu stjórnlagaráðs. Ekki með rökstuðningi frá sérfræðingum heldur virðist mér oft og tíðum það vera af því að menn telja þann texta betri.

Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í þetta, en í niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar var áberandi að langtum fleiri voru sammála um að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrána en greiddu atkvæði með því að þetta frumvarp yrði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Nota bene, ekki óbreytt heldur grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Ég skil það þannig að þetta sé þá hluti af því að breyta stjórnarskrá.

Svo margir greiddu atkvæði með því að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrána. Þýðir það að þeir hafi allir samþykkt það að þetta tiltekna orðalag stjórnlagaráðsins verði lagt til grundvallar? (Gripið fram í: Já.) Nei. Það bara stenst ekki, en það sem er hins vegar alveg augljóst er að skýr vilji er til þess að slíkt ákvæði verði sett og bundið í stjórnarskrá. Persónulega er ég mjög ánægð með það og hef verið þeirrar skoðunar alllengi. Ég get ekki fallist á að það eigi að vera afstaða að engu megi breyta þrátt fyrir að sérfræðingar og okkar helstu stjórnspekingar á þessu sviði séu sammála um nauðsyn breytinga.

Hörð gagnrýni hefur komið á áhrif þeirra breytinga sem lagðar eru til, að þær hafi ekki verið metnar og að ekki hafi ekki verið metið hvort þörf sé á eða nauðsynlegt hafi verið að breyta svo verulega frá ákvæðum gildandi mannréttindakafla. Það hefur látlaust verið á það bent að heildarmat verði að fara fram á þessum tillögum. Síðast kom það í álitum sem nefndinni bárust í síðustu viku, að ég hygg frá laganefnd Lögmannafélags Íslands og umboðsmanni. Feneyjanefnd er auðvitað ekki að vinna slíkt heildarmat eða skoða heildaráhrif. Sú rannsókn hefur ekki farið fram.

Ég verð að skjóta því að hér að ég hefði kosið að Alþingi hefði ákveðið að breyta tilteknum þáttum og verja fé í rannsóknir á stjórnarskrármálefnum, í stað þess að fara í allt þetta sem hér er, eins og ég nefndi reyndar á sínum tíma líka, að setja fé til háskólanna og vísindasamfélagsins í stjórnskipulegar rannsóknir. Ég er sjálf lögfræðingur og lærði stjórnskipunarrétt í Háskóla Íslands. Nú eru fleiri háskólar sem kenna lögfræði en þegar ég var að læra, þá var bara ein deild sem kenndi lögfræði. Við lásum Stjórnskipunarrétt Ólafs Jóhannessonar, mikið grundvallarrit. Við vísum enn þá til þess og það er mikið til þess merka rits vísað en ég held að það hefði verið verulega gott fyrir Alþingi ef menn hefðu sett fé í rannsóknir á því hvernig þessi stjórnarskrá hefur reynst, hvað það er sem menn vilja líta til og hvernig þetta er í öðrum löndum. Hversu miklu skipti stjórnarskráin í þeim atburðum sem hér urðu? Ég er þeirrar skoðunar að það hafi ekki verið stjórnarskráin sem brást, það voru aðrir hlutir sem brugðust illilega.

Hæstv. utanríkisráðherra er búinn að komast að því að stjórnarskráin hafi farið í sérstakt álagspróf um daginn, gamla stjórnarskráin fór sem sagt í álagspróf í Icesave-málinu. Þar hafi hún sýnt mikinn teygjanleika, svo ég leggi nú hæstv. ráðherra orð í munn, en þetta sagði hann og var athyglisvert í sjálfu sér. Ég vil ekki að við gefumst upp á því að enn er ráðrúm fyrir okkur til þess að gera þetta með öðrum hætti.

Þegar við skiptumst á skoðunum í 2. umr., sem við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfum margoft talað um að væri bráðnauðsynlegt, þá eru einmitt atriði af þessum toga sem skipta líka máli þegar við lítum til stjórnskipunarmála.

Virðulegi forseti. Ég sé að tíminn flýgur frá mér, ég er ekki einu sinni komin í gegnum fyrstu málsgreinina af þessu nefndaráliti. Ég verð bara að vísa til þess og hleyp yfir það eftir því sem mér hentar. Nefndarálitið liggur auðvitað hér frammi og menn geta kynnt sér það. Ég mundi ekki vilja afgreiða þetta mál, sæti ég í þessum meiri hluta, með alla þá gagnrýni sem fram hefur komið frá sérfræðingum og aðilum sem gerst þekkja á þessu sviði. Við höfum alla jafna á Íslandi talið mikilvægt að líta til sérfræðinga í einstökum málum, ekki bara þegar lögfræði er annars vegar heldur í ýmsum málum. Mér þykir mjög undarlegt ef það má ekki hlusta á þá sem best kunna þegar kemur að því sem kannski er innsti kjarninn í lögfræði. Mér þykir það mjög furðulegt, ég bara skil það ekki. Þegar við erum komin algjörlega inn að kjarna, herra forseti, þá á ekki að hlusta á raddir sérfræðinga.

Þá er bara búið að ákveða að þeir séu tréhestar og að ekki sé hægt að tala við þá, þeir séu fastir í gömlu stjórnarskránni og vilji engu breyta. Það getur ekki verið afstaða. Það verður auðvitað að fara yfir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram og það skiptir máli hverjir það eru sem gera þær. Þá er ég ekki að tala um að ágætir þingmenn, virðulegir, lesi bara umsagnirnar, ég er að tala um að menn velti fyrir sér af hverju þessi gagnrýni er sett fram og taki jafnvel mark á henni. Höfum við ekki margoft sagt að við hefðum stundum betur hlustað á varnaðarorð? Ég skal taka það til mín, herra forseti, maður hefði stundum átt að hlusta betur á varnaðarorðin, það hefði kannski verið betra fyrir okkur í aðdraganda falls bankanna. Það hefði kannski verið betra fyrir okkur í Icesave-málinu líka ef við hefðum hlustað á varnaðarorðin. Af hverju má ekki hlusta á varnaðarorðin þegar kemur að þessu hér? Af hverju má ekki fara betur yfir þetta? Af hverju þarf endilega að klára þetta svona? Af hverju á það að vera síðasta verk þessa þings hér, sem hefur verið í þvílíkum deilum allan tímann, að afgreiða þetta mál með minnsta mögulega mun? Hvernig getur það verið afstaða okkar hér á Alþingi að það sé gott? Hvernig getur það hreinlega verið eftir allt sem á undan er gengið og þá atburði sem hér hafa orðið að það sé í lagi að afgreiða þetta með minnsta mögulega mun af því að minni hlutinn sé svo leiðinlegur og stífur og þver? Þrátt fyrir öll þessi varnaðarorð sem fyrir liggja.

Herra forseti. Væri þá ekki betra að við litum til þess sem ég nefndi hér í upphafi og hugsuðum með okkur: Hvernig getum við kallað samstöðuna fram? Hvernig getum við fengið okkur til að ná henni betur fram? Hvernig getum við gert það? Eigum við ekki að breyta stjórnarskránni á þann hátt að það verði að vera samstaða og leggja það á komandi þingmenn að þeir neyðist til að tala sig niður á niðurstöðu?

Herra forseti. Mér finnst þetta mikið umhugsunarefni og af því að mér, eins og okkur öllum hér í þessum sal, er annt um það hvernig hlutunum vindur fram, þá finnst mér þetta vera nokkuð sem við ættum að líta sérstaklega til. Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa margar fínar umræður átt sér stað. Ég ætla ekki að standa hér og segja að allt sem gert hefur verið hafi verið ómögulegt, en núna er tækifæri til þess að gera þetta betur og það eigum við að gera.

Þess vegna töldum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd rétt að leggja fram ítarlegt nefndarálit við þessa umræðu og við reyndum að draga fram þær athugasemdir sem fram hafa komið, þau álitamál sem nauðsynlegt er, og nefndin hefði þurft, að skoða betur. Við drögum það fram á yfir 60 blaðsíðum og tökum síðan til viðbótar aðrar umsagnir sem komu frá öðrum þingnefndum. Það er til að varpa ljósi á þetta mál eins og það er búið, allt frá upphafi hefur það hlotið gagnrýni af hálfu okkar færustu sérfræðinga. Mikilvægir fundir hafa verið haldnir undanfarið á vettvangi háskólanna. Það voru líka fundaraðir fyrir ári síðan sem komu mikilvægar inn í þessa umræðu. Þar eru menn að leggja gott til í því að koma með athugasemdir um það hvað betur megi fara. Allir vilja leggja gott til.

Það getur vel verið að það sé eitt og eitt atriði sem hefur reynst sérstaklega erfitt en það er þá bara til að sigrast á því. Það er ekki til að ákveða að það þurfi bara að keyra það í gegn með minnsta mögulega mun. Mér finnst hreinlega ekki koma til álita að gera það með þeim hætti.

Herra forseti. Það líður nú að lokum þessarar ræðu minnar. Ég sé tímans vegna að það er ekki praktískt fyrir mig að taka nýja þætti til umfjöllunar. Það eru nokkrir þættir sérstaklega sem mig langar að ræða í komandi ræðum, einstök ákvæði sem ég sé úr því sem komið er. Það eru mannréttindakaflinn, forsetaembættið svo ég nefni það enn og aftur, stjórnskipunin sjálf, sem að sjálfsögðu skiptir gríðarlega miklu máli, og utanríkismál. Utanríkiskaflinn er í fyrsta skipti kynntur í þessum drögum sem efni í stjórnarskrá. Það hefur margoft verið rætt að það þurfi að taka þar á einstökum þáttum, en við heyrðum strax í fyrirspurnatíma í morgun að verulegur ágreiningur er um hvað er þar í raun og veru á ferðinni. Þar virðist í fyrsta skipti, svo ég þekki til, vera sett ákvæði í stjórnarskrá um að hægt sé að framselja vald til stofnana sem við höfum ekki aðild að. Það er eitt af þeim atriðum sem við verðum auðvitað að skoða.

Virðulegi forseti. Það hefur ekki verið til siðs að fullvalda þjóðir afsali fullveldi sínu eða framselji það til stofnunar sem það hefur ekki aðild að. Það er auðvitað mikið grundvallaratriði og grundvallarbreyting, herra forseti, sem (Forseti hringir.) ég tel nauðsynlegt fyrir okkur að ræða hér í komandi umræðum.