141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Já, þetta er eitt af mörgum undarlegum atriðum sem birtast í frumvarpinu, að þetta sé slitið í sundur. Ég tel að stjórnarskráin sé heildstætt plagg og eins og þetta er núna þurfa breytingar á stjórnarskrá að fara fyrir tvö þing til að þær taki gildi í óbreyttu formi og frumvarpið þarf að samþykkja á báðum þingum.

Það er því einstaklega ruglingslegt þetta ákvæði um að sumar breytingar á stjórnarskrá þurfi að fara eina umferð og aðrar aðra umferð. Ég tek undir með þingmanninum varðandi það að kaflinn um Alþingi er ekki jafnrétthár í þessum tillögum stjórnlagaráðs og til dæmis mannréttindakaflinn. Svo það sé nú ekki misskilið þá er ég mjög fyrir mannréttindi, en ég tel að þetta sé heildstætt plagg. Getur hv. þm. Ólöf Nordal ekki tekið undir það með mér að hvora leiðina sem við förum, hvort sem við höldum því ákvæði sem er í núverandi stjórnarskrá eða breytum því til þyngingar, á það að ná yfir stjórnarskrána alla?