141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:25]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel einfaldlega að það hefði verið miklu betra fyrir virðulegan meiri hluta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að bíða þar til þessar umsagnir lægju fyrir áður en málið yrði afgreitt í 2. umr. (ÁI: Fara bara í sund eða eitthvað?) — Það er bara mín afstaða. Það hefði verið hægt að bíða eftir því, það var nóg að gera í hv. nefnd, að fjalla um einstaka þætti málsins meðan beðið var eftir niðurstöðu Feneyjanefndarinnar.

Herra forseti. Hver er asinn? Er það ekki það að menn hafa einsett sér að afgreiða verði þetta mál, hvað sem það kostar, á þessu þingi með svona naumum þingmeirihluta? Ég lýsi mig ósammála því og ég held að það sé vont fyrir málið. Ég held að það sé hreinlega vont fyrir stjórnarskrá okkar, vont fyrir borgarana sem þurfa að fara eftir henni og sem eiga að njóta verndar hennar í þessu þjóðfélagi. Stjórnarskráin er fyrir okkur, hún er fyrir borgarana en ekki fyrir stjórnmálamenn að leika sér að.