141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:28]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í ræðunni að ég væri afskaplega bjartsýn á að menn áttuðu sig á því að hægt væri að ná samstöðu um að ljúka þessu máli ef menn vildu með öðrum hætti en hér er lagt upp með. Ég held að ég hafi einmitt tekið það fram að ég er sérstaklega bjartsýn manneskja að eðlisfari.

En það er fjarstæðukennt, og ég vil mótmæla því og leiðrétta, að halda því fram að ég sé að gera lítið úr þeim Íslendingum sem hafa haft áhuga á stjórnarskipunarmálum. Það er ekki svo. Ég stóð sjálf fyrir því hér á Alþingi, og nefndi það í ræðu minni, í gömlu allsherjarnefndinni, að þjóðfundur yrði settur á. Ég tel enn að hann hafi verið mjög merkilegt fyrirbæri. Ég taldi það hins vegar nægilegt til að svara því kalli og eftir það átti að koma að Alþingi af því að hér inni situr reyndar þverskurður þjóðarinnar líka. Hvaðan komum við? Erum við áskrifendur hér? Er það ekki fólk sem kýs okkur hingað, alls konar fólk, héðan og þaðan? Erum við ekki ólík? Erum við ekki þverskurður? Það finnst mér. Og mér finnst að við eigum líka að taka það alvarlega þegar við tölum um þessi mál.