141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:31]
Horfa

Valgeir Skagfjörð (Hr):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna, hún er fróðleg og athyglisverð. Það er mikilsvert að standa hér og tjá sig um þetta stóra og mikla mál. Hv. þm. Ólöf Nordal kom reyndar með mjög góða hugmynd, þ.e. að neyða þingheim til þess að vinna saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Það væri vissulega eftirsóknarvert að breið sátt næðist um nýja stjórnarskrá. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir, skrifaði Thorbjørn Egner í frægu leikriti, en eins og fram hefur komið höfum við nú ekki valið okkur saman sjálf inn á hið háa Alþingi, það eru kjósendur sem velja það fólk eftir ýmsum tæknilegum aðferðum og lögum.

Engu að síður er það góð tilfinning að standa hér og ræða þetta mál, það hefur brunnið á mér lengi. Þjóðin fékk ágætisfréttir í upphafi vikunnar og þær fréttir sannfærðu okkur um að réttlætið geti stundum náð fram að ganga og er það vel, en við megum heldur ekki gleyma því að réttlætinu er ekki úthlutað til borgaranna. Það hefur aldrei verið þannig. Fyrir því hafa menn þurft að berjast. Á sama hátt hefur brunnið á þjóðinni það brýna réttlætismál að semja og skrifa sína eigin stjórnarskrá og tryggja sér mannréttindi, lýðræði, frelsi og réttlæti til framtíðar. Í drögum stjórnlagaráðs og því frumvarpi sem hér liggur fyrir er um margt svipaður tónn sleginn og er að finna í þeirri gömlu, þ.e. um göfug gildi, jafnrétti gagnvart lögunum, réttindi og skyldur borgaranna og flest það sem stjórnarskrá á að innihalda.

Því miður hefur ekki tekist á undanförnum áratugum að ná sátt um að endurnýja í heild sinni stjórnarskrá íslenska lýðveldisins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og þótt gerðar hafi verið breytingar á einstaka greinum hér og þar. Hér er því um að ræða stórt mál sem öll þjóðin lætur sig miklu varða. Það fer enginn í grafgötur um það. Hér er á dagskrá sjálfur samfélagssáttmálinn, sáttmálinn um það í hvernig samfélagi við viljum lifa. Orðalag þessa sáttmála er öllum skiljanlegt. Margar greinar hans eru vandaðar og fallegar og sem betur fer lausar við það sem við stundum köllum stofnanamál eða þann þurra blæ sem einkennir hefðbundinn lagatexta. Þær eru gildishlaðnar og allt að því ljóðrænar, eins og til að mynda 8. gr., með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.“

Fyrst og síðast finnst mér skína þar í gegn tærleiki og skýrleiki. Blásið var til þjóðfundar um málið þar sem þúsund manns skiptust á skoðunum á heilbrigðan hátt í góðri sátt. Það væri óskandi að Íslendingar æfðu sig betur í því að skiptast á skoðunum, að hafa heilbrigð skoðanaskipti og tala saman jafnvel þó að þeir séu ósammála, að þeir fyndu sér leið að markmiðunum, jafnvel þó að þeir séu ósammála um leiðirnar. En hér var skipst á skoðunum um innihald stjórnarskrár íslenska lýðveldisins. Úrtöluraddir létu auðvitað í sér heyra, töluðu þjóðfundinn niður og lögðu sig í framkróka um að gera sem minnst úr fundinum þar sem allt lék í lyndi og fólk talaði saman. Fólk var þarna samankomið af trúmennsku og áhuga og fannst það þjóna göfugum tilgangi og allt að því æðri tilgangi. Ferlið sem fór af stað í kjölfarið þekkja auðvitað allir.

Vilji þeirra sem vildu raunverulega breyta stjórnarskránni til samræmis við breytta tíma og breyttar aðstæður dugði til þess að stjórnlagaráð fékk tíma og ráðrúm til að vinna drög að nýrri stjórnarskrá sem var síðan kosið um, eins og við þekkjum.

Hér er talað um að hlutirnir séu gerðir á miklum hraða, séu hraðsoðnir, að ekki sé gefinn tími. En góðir hlutir gerast hægt, það vitum við. Það hefur farið gríðarlegur tími í stjórnarskrána. Í mörg ár hefur verið talað um breytingar á stjórnarskrá, um réttarbætur, um aukið lýðræði, um aukið vægi kjósenda í vali á fulltrúum, um eitt og annað sem viðkemur mannréttindum og lýðfrelsi. Upplýsingakaflinn er til dæmis afskaplega góður í þessu plaggi. En þjóðaratkvæðagreiðslan um stjórnarskrá var töluð niður á sama hátt og þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave, en niðurstaða þeirra kosninga færðu okkur fullnaðarsigur í því máli. Aukið vægi þjóðaratkvæðagreiðslna í nýrri stjórnarskrá ættu því ekkert að þvælast fyrir vel meinandi og hugsandi fólki. Hér hefur verið uppi hávær krafa um lýðræðisumbætur, nýja kosningalöggjöf, skýrari ákvæði um náttúruauðlindir þjóðarinnar og hér stöndum við með drög að nýrri stjórnarskrá sem er um margt hið ágætasta plagg.

Þjóðin bíður þess með óþreyju að þetta mál verði klárað. Ég held að það sé alveg hægt að klára málið með vönduðum vinnubrögðum og það sé tími til stefnu til að koma því í höfn í góðri sátt ef til þess skapast vilji. Þjóðin kaus um málið í október síðastliðnum og hvernig sem menn reyna að toga og teygja og túlka niðurstöður þeirrar atkvæðagreiðslu er alveg dagljóst að þorri þjóðarinnar vill að drögin verði höfð til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Því miður var niðurstaða þeirrar atkvæðagreiðslu bara ráðgefandi en ekki bindandi.

Hreyfingin var á sínum tíma stofnuð í kringum brýn verkefni sem hún taldi að þyrfti að leysa og var eitt aðalbaráttumálið einmitt að þjóðin fengi að skrifa sína eigin stjórnarskrá, leggja þeirri sem við fengum frá kónginum og alls ekki láta stjórnmálamenn skrifa hana. Það hugnaðist ekki alveg öllum. Við þurfum ekki að rifja hér upp ógildingu stjórnlagaþingskosningar og aðrar hindranir á þessari vegferð en stjórnlagaráði tókst þó að lokum að koma frá sér plaggi sem drögum að nýrri stjórnarskrá og það plagg hefur hlotið ágætisumsögn víða, en síðustu dægrin hafa pólitískir andstæðingar frumvarpsins fundið því allt til foráttu. Það er hins vegar brýnt að hagsmunir allrar þjóðarinnar verði hafðir að leiðarljósi. Nú er nauðsynlegt að samfélagssáttmáli Íslendinga endurspegli þau gildi sem urðu niðurstaða þjóðfundarins. Þá á ég við gildi eins og heiðarleika, réttlæti, kærleika, sanngirni, réttsýni, lýðræði, frelsi og jafnrétti.

Í 22. gr., sem fjallar um félagsleg réttindi, segir að öllum skuli tryggður réttur til almannatrygginga. Okkur þykja það sjálfsögð mannréttindi í dag en við megum aldrei gleyma því að það þurfti mikla, langa og stranga baráttu til að koma hér á almannatryggingum. Í 25. gr. segir að öllum skuli tryggður réttur til sanngjarnra launa. Við megum heldur ekki gleyma því að ef aldrei hefði verið háð verkalýðsbarátta á Íslandi væru dagvinnulaunin talsvert lægri en þau eru í dag og enn stendur yfir verkalýðsbarátta sem snýst nú um stundir meira um sanngirni og réttlæti í því að fá að greiða af lánum sínum með sama gjaldmiðli og dagvinnulaunin eru greidd út í.

Það væru að mínu viti hrapalleg mistök að nýta ekki tækifærið sem við höfum til að klára stjórnarskrármálið fyrir kosningar. Við skuldum þjóðinni það og við þurfum að hafa það hugrekki að standa við það. Þjóðin hafði hugrekki til að segja nei við Icesave. Af hverju? Af því að óréttlætið í því að leggja skuldir einkafyrirtækis á herðar almenningi var óásættanlegt. Á meðan ógnin af Icesave-skuldinni vofði yfir almenningi kulnaði vonin og trúin á endurreisn landsins eftir hrun og að sama skapi trúin og traustið á Alþingi og stjórnsýslu landsins vegna þess hvernig haldið hefur verið á málum.

Almenningur í þessu landi hefur að öllum líkindum meiri áhyggjur af því hvort hann á fyrir mjólkinni og brauðinu og hvort hann getur greitt af lánunum en því hvort stjórnarskrármálið kemst í gegnum þingið fyrir kosningar. Í því skjóli skáka andstæðingar stjórnarskrármálsins og er rekinn áróður um ágalla hinna ýmsu greina. Vissulega þarf fólk að tala saman og vissulega þarf að taka tillit til athugasemda. Ég hef fulla trú á því að allir sem hér eru inni séu vel meinandi og vel hugsandi og beri hag þjóðarinnar fyrir brjósti. Þeir hljóta því að vera tilbúnir til að setjast niður og ræða málin, skoða nefndarálitin í þaula, hlusta á sérfræðingana, fræðimennina og fræðifólkið. Það má ekki hindra framgang málsins með smásmugulegum fundarskapa-terrorisma. Það er skiljanlegt að menn spyrji sig til hvers öllum þessum peningum sé eytt í að semja plagg sem þingheimur virðist ætla bara að togast á um og svo hilli undir að það verði á endanum rifið í tætlur. Ætlum við virkilega að vera svona smásmuguleg að elta ólar við hreintrúarstefnu í fundarsköpum og hindra það að þjóðin fái sína eigin frumsömdu stjórnarskrá sem hún hefur svo lengi beðið eftir?

Ég tek undir orð hv. þm. Loga Más Einarssonar. Hann talaði um mannval á Alþingi, fjölbreytni, þ.e. þverskurðinn af þjóðinni. Honum fannst mannvalið einsleitt hér á þingi. Ég held að fjölbreytnin geti orðið miklu meiri ef við fáum persónukjör í gegn. Ég held að það sé gott fyrir okkur. Jú, jú, það er vissulega fjölbreytni hér og við erum ólík, komum úr ólíkum áttum með ólíkan bakgrunn og ólíka menntun, en ég held að við getum gert enn betur. Það er eðlilegt að þeir sem starfa hér skiptist á skoðunum og sjónarmiðin eru auðvitað ekki alltaf þau sömu, en í ferlinu hefur verið leitast við að hlusta og taka tillit og gera breytingar og sætta sjónarmið og gera málamiðlanir. Og nú er málið loksins komið á það stig að það hillir í raun undir það eftir áratugalanga bið að ný stjórnarskrá íslenska lýðveldisins líti dagsins ljós, stjórnarskrá sem þjóðin sjálf hefur átt þátt í að skapa.

Ef alþingismenn hafa sama kjark og þjóðin sýndi í Icesave-málinu og greiða leiðina fyrir málið þannig að það klárast mundi það að mínu mati blása þjóðinni nýja von í brjóst og við fengjum kannski aftur trú á lýðræðið og trú á Alþingi og ráðamenn. Kannski getur þá fólkið í landinu, sem kýs fólk til starfa hér, farið að treysta því sem þingmenn segja og trúa á framtíðina. Okkur skortir trú á framtíðina. Mikið bölsýnisraus hefur verið í gangi og skort hefur á að skapa trú á framtíðina, að við séum leidd inn í ljósið þar sem við getum farið að trúa aftur á bjarta framtíð. Það eru tækifæri og ýmis teikn á lofti. Talað hefur verið um það hér í ræðustóli hvort þingmenn mundu breytast. Ég hef nú ekki alltaf haft mikla trú á íslenskum stjórnmálum en ég held að stjórnmálamenningin og stjórnmálamennirnir í framtíðinni sem munu hugsanlega veljast hingað inn með nýju kosningakerfi eða öðruvísi kosningalöggjöf geti breytt einhverju. Það eru bara viðhorf okkar sem breytast. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð að hér verði alvöruviðhorfsbreyting. Eitt svona plagg, sem er að sönnu mjög mikilvægt, er samfélagssáttmáli. Það er mikilsvert og mikilvægt fyrir alla að um stjórnarskrána náist eins víðtæk sátt og hægt er.

Herra forseti. Ég vona að við náum að sigla þessu fleyi í höfn fyrir kosningar. Ég fagna frumvarpinu og ég fagna þeim umræðum sem eru hér. Ég vona að þær haldi áfram og verði líflegar og uppbyggilegar og muni að lokum leiða til þess að við náum sátt, að dýrin í þessum skógi geti að lokum orðið þokkalegir vinir.