141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:47]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða og að ég vil kalla uppbyggilega ræðu. Hann fór yfir þann langa, grýtta feril og löngu grýttu götu sem þetta mál hefur farið allt frá hruni, yfir vegferð þess. Hann notaði orð sem ég tel rétt að taka undir um verkið og um þá sem komu að vinnunni hér á fyrri stigum og voru orðin trúmennska og vandvirkni. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að taka undir þau orð og nota tækifærið til að þakka öllum þeim gríðarlega mikla fjölda sem hefur lagt hönd á plóg svo við kæmumst í reynd þangað sem við erum núna.

Það var gert lítið úr aðkomu almennings að þessu máli í ræðu í morgun. Ég er sem betur fer búin að gleyma hvaða hv. þingmaður það var en það er ástæða til að muna að yfir 80 þúsund manns kusu í stjórnlagaþingskosningunni, sem seinna var úrskurðuð ógild, og yfir 100 þúsund manns í þjóðaratkvæðagreiðslunni núna í október.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að minna mig á það og gefa mér tækifæri til að rifja það upp. Það kann vel að vera að við séum ekki nógu sundurleitur hópur hér á Alþingi en mér finnst við stundum alveg nógu sundurleit, ég verð að segja alveg eins og er. Mörg hundruð þúsund manns hafa komið að þessu, ég gleymdi að nefna þjóðfundinn og allar þær athugasemdir og ábendingar sem stjórnlagaráði bárust. Það er ljóst að það hafa margir lagt hönd á plóginn. Ég tek undir það með hv. þingmanni að beðið er eftir því að við skilum okkar vinnu núna.