141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hjó eftir því að hann sagði að þegar Borgarahreyfingin var stofnuð hefði verið eitt af málunum að semja stjórnarskrá og að það væru ekki stjórnmálamenn sem ættu að gera það. Ég velti þeim fyrir mér sem fara í að semja stjórnarskrá, þeir breytast kannski óvart í einhvers konar stjórnmálamenn en þeir breytast ekki í þingmenn. Ég held nefnilega að miðað við það sem var sagt hérna áðan um að við kæmum öll hvert úr sinni áttinni og værum voðalega ólík, sem við erum, og eitthvað svoleiðis verðum við öll svolítið samdauna þegar við komum hingað inn.

Við höldum að þessi salur og það sem við, 63 manns, erum að gera alla daga sé það eina sem skipti máli. Ég held að við öll þurfum stundum að klípa okkur svolítið í handlegginn og átta okkur á því að þetta snýst ekki um okkur heldur um fólkið fyrir utan þetta hús. Mér finnst það svolítið hafa gleymst í umræðunni um stjórnarskrána að málið snýst ekki um hvort við gerum þetta eða einhverjir í sérfræðinganefndum heldur um að hér var kosið fólk sem sat og vann, kom alls staðar að og var ekki að hugsa um að verða endurkosið á næsta kjörtímabili, það gerði þetta allt. Það er það sem er merkilegt við þetta og við skuldum okkur öllum að klára þetta efni.

Auðvitað er ég ekki sammála öllu í þessu, það er náttúrlega alveg ljóst því enginn skrifar sína eigin stjórnarskrá nema við eldhúsborðið heima. Mig langar til að spyrja hv. þingmann um frumkvæði kjósenda, (Forseti hringir.) að 2% kjósenda geti komið og lagt fram eða farið þess á leit að mál sé tekið upp á þinginu. Hvað finnst hv. þingmanni um það ákvæði?