141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekkert sáttur við þetta svar. Það er nefnilega þannig að við erum að setja stjórnarskrá fyrir Ísland og hún á ekki að þurfa að grípa til einhverra heimilda í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það á að standa skýrum stöfum „eða til varnar landinu“ í stjórnarskrá Íslands svo Alþingi þurfi ekki að fara að fjalla um hernaðaraðgerðir þegar ráðist er beint á landið. Það er bara lapsus, þetta vantar.

Ég skora á hv. nefnd að skoða það að setja inn „eða til varnar landinu“. Auðvitað mundu menn í slíku tilfelli grípa beint til hernaðaraðgerða en þá mundi einhver segja að verið væri að brjóta stjórnarskrána með vísan í ákvæði í einhverjum samningum úti í heimi. Við eigum að sjálfsögðu að hafa þetta í okkar eigin stjórnarskrá. Ég saknaði einmitt þessa í ítarlegri umfjöllun hv. þingmanns um greinina. Við getum ekki gengið svo langt í því að vísa í alls konar sáttmála úti í heimi að við gleymum að setja ákvæðin í íslenska stjórnarskrá sem er okkar grunnplagg.

Svo vildi ég spyrja hv. þingmann um eignarréttinn. Í tillögum stjórnlagaráðs kom fram að eignarréttinum fylgdu skyldur. Lögfræðinganefndin tók það út og meiri hluti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar flutti frumvarp um að það yrði tekið út, hún flutti frumvarpið sjálf. Síðan kemur þessi nefnd aftur með breytingartillögu um að taka inn ákvæðið um að eignarrétti fylgdu skyldur. Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Hver er munurinn á því að hafa þetta ákvæði inni eða úti? Er kannski enginn munur á því? Þá vildi ég gjarnan sleppa því af því að það veltir upp efasemdum um hvort eignarrétturinn sé eins sterkur eftir sem áður, og hann hefur verulega mikið vægi. Ég vil spyrja: Maður sem á íbúð og notar hana ekki, er það skylda hans vegna annarra hópa, samkvæmt 2. mgr. 9. gr. þar sem réttindi annarra geta veikt mannréttindi, að hann skuli leigja íbúðina? Og hvað gerist með mann sem á íbúð með tómu herbergi? (Forseti hringir.) Er hann skyldugur til að hleypa ókunnugum inn í íbúðina sína?