141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst byrja á að þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir þessa ítarlegu ræðu. Mér sýnist að nú sé árangurinn að skila sér af því að hafa beðið fastanefndir þingsins um að fjalla um þau atriði sem koma þeirra sérsviði sérstaklega við. Ég hlakka til að heyra ræður frá öðrum þingmönnum sem hafa tekið þátt í nefndarvinnunni og farið mjög svo auðsjáanlega ítarlega ofan í hinar ýmsu greinar því að auðvitað, eða kannski ekki auðvitað, erum við sem sitjum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd svolítið meiri generalistar, ef þannig má að orði komast. Ég vil því þakka sérstaklega þessa yfirferð.

Svo vil ég segja varðandi utanríkismálanefndina að við fórum að öllum tillögum þeirra í nefndaráliti og breytingum á utanríkismálakaflanum og líka þeirri að fella 112. gr. niður. Það voru ekki alveg allir á því að það væri rétt að fella niður alla greinina þótt það væri fullt samkomulag um að fella niður síðari málsgreinina. Það eigum við því eftir að fjalla um nánar og það gæti verið að það yrði einhver breyting þar á.