141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir bæði góða ræðu og hófstillta sem gerir það að verkum að við sem erum ekki alltaf hófstilltir í þessum ræðustól verðum að vera það að minnsta kosti í andsvarinu.

Mér finnst alveg rétt sjónarmið sem hv. þingmaður setti fram, að þetta mál er slíkt grundvallarmál að við verðum að reyna að vanda okkur í umræðunni og ræða það efnislega. Við getum deilt um forsöguna, deilt um það hverjir séu sökudólgarnir, en hitt er alveg óumdeilt að við stöndum hér í þeim sporum sem við erum í í dag. Það er liðið á kjörtímabilið, við erum með þetta stóra og erfiða mál fyrir framan okkur. Við ætlum að reyna að finna á því þá úrlausn sem við teljum heppilegasta og besta fyrir þjóðina og við sjáum það öll af þessari umræðu að ekkert okkar, ekkert einasta okkar, hefur í rauninni þá nauðsynlegu yfirsýn sem við þurfum að hafa yfir þetta mikla plagg. Ég skal játa það fyrir mína parta og ég fullyrði að það á við um aðra. Ég fullyrði líka að það hefur aldrei staðið á því, til að mynda í Sjálfstæðisflokknum, að við værum tilbúin að skoða breytingar á (Forseti hringir.) stjórnarskránni. Við erum tilbúin að skoða tilteknar breytingar. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir núna er hvernig við eigum að bregðast við (Forseti hringir.) þeim mikla vanda sem við erum stödd í núna með þetta mál.