141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir hófstillta ræðu og koma fyrst inn á það vandamál að þegar lögfræðingar og dómarar leita að lögskýringargögnum fara þeir í greinargerð með viðkomandi frumvarpi. Það er því ekki hægt að skipta út greinargerð sisvona, sýnist mér, ekki svona rökfræðilega. Það yrði í rauninni að flytja nýtt mál til að breyta greinargerðinni þannig að hún yrði rökrétt. Ég fellst alveg á það með hv. þingmanni að hún sé ekki rökrétt af því að hún er út og suður, hún tekur inn sjónarmið stjórnlagaráðs og síðan sjónarmið hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, (Gripið fram í: Sérfræðinganefndarinnar.) — já, sérfræðinganefndarinnar líka.

Málið er flutt af meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og hún ber ábyrgð á því sem hún flytur. Þess vegna finnst mér dálítið undarlegt þegar maður les greinargerð nefndarinnar sjálfrar um eigið frumvarp að hún skuli stundum gagnrýna það sem hún flutti áður, eins og hún hafi verið meðvitundarlaus þegar hún flutti það.

Ég tek líka undir — nú er ræðutíminn búinn. Mér sýndist hann vera miklu lengri, frú forseti.