141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:31]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að með greinargerðinni sé verið að skýra ferlið að mörgu leyti. Ég held að það sé enn hægt að breyta þessari greinargerð eins og ég kom að í ræðu minni. Ég held að það sé hægt að búa hana þannig úr garði að við séum með skýringar á hverju ákvæði. Þær þurfa ekki að vera mjög langar. Þær geta verið töluvert einfaldari en þær eru. Eins og hv. þingmaður kom inn á er greinargerðin mjög mikilvægt lögskýringargagn fyrir framtíðina. Það er mjög mikilvægt að það sé alveg skýrt hver vilji löggjafans er, ég tala nú ekki um þegar menn vinna með jafnstór hugtök og um ræðir í sjálfri stjórnarskránni.