141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:34]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mundi styðja breytingu á 79. gr. eins og ég kom inn á í ræðu minni. (Gripið fram í.) Ég hef haldið því fram að það sé mjög gott fyrir þingið og fyrir þá vinnu sem við erum núna í að geta verið með þá breytingu í farvatninu. Það mundi gera okkur kleift að vinna áfram með málið á næsta kjörtímabili og það mundi líka gera okkur kleift að vinna áfram með málið á þessu kjörtímabili án tímapressu. Það er aldrei gott að vinna nokkurt mál í tímapressu.

Ég held reyndar að það mætti gera þetta enn einfaldara en hv. þingmaður leggur til. Ég er þeirrar skoðunar að einfaldur meiri hluti þings og einfaldur meiri hluti þjóðarinnar eigi að geta breytt stjórnarskránni, það sé nógu flókið. Það á að vera erfitt að breyta stjórnarskránni og það að gera það í þinginu og síðan með þjóðaratkvæðagreiðslu er töluvert meira en að segja það.