141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að reyna að koma sjálfri mér inn í höfuð hv. þingmanns Róberts Marshalls. Fyrirspurnatíminn á eftir ræðu þingmanna er til þess að spyrja út í skoðanir þeirra og eru ekki skoðanamyndandi fyrir þann sem spyr, svo að það sé sagt hér.

Auðvitað höfum við fjölmiðla í landinu, ég tek undir það, en það vekur sannarlega athygli að hv. þingmaður hafi ekki verið á nefndarálitinu sem kemur frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem hann var flutningsmaður. Mér finnst því mjög eðlilegt að það verði upplýst hvers vegna það var. Fram hafa komið miklar efasemdir hjá þingmönnum með framhald málsins í þessum búningi. Hv. þingmaður var jú flutningsmaður svo að ég segi það nú einu sinni enn.

Nú leggur hann til að fara leið Framsóknarflokksins, að teknir verði einhverjir kaflar eða einhverjar greinar og reynt að gera lítils háttar breytingar á stjórnarskránni nú fyrir vorið og geyma vinnuna fram á næsta kjörtímabil. Þess vegna tel ég spurningu mína mjög eðlilega, (Forseti hringir.) sérstaklega undir þessum dagskrárlið.