141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður flutti hér efnislega ræðu og fór yfir það málasvið sem sú nefnd sem hann veitir formennsku fór yfir í sambandi við aðdraganda þessa máls. Ég tel að hv. þingmaður hafi lagt allt of mikið í útskýringar og ályktanir af því sem gerðist annars vegar á þjóðfundinum og hins vegar í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sem sumir hafa raunar kallað skoðanakönnun. Það hefur verið á það bent, m.a. af prófessor Gunnari Helga Kristinssyni, að valið á þjóðfundinn sé ekki endilega sú endurspeglun á þjóðarvilja sem menn hafa verið að reyna að draga ályktanir af, það sé hægt með miklu einfaldari og markvissari hætti að laða fram hugmyndir manna í þessum efnum á grundvelli skoðanakannana.

Nú vil ég taka fram að ég var ekki andvígur því nema síður sé að þjóðfundur færi fram. Ég taldi hann hluta af því mikla mósaíki sem við vildum stilla upp áður en við færum að vinna af alvöru að endurskoðun á stjórnarskránni. Ég held hins vegar að mjög varhugavert sé að draga of miklar ályktanir af niðurstöðu þjóðfundarins, m.a. með skírskotun til álits prófessors Gunnars Helga Kristinssonar sem ég var að vitna til.

Sama vil ég segja varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna að hún var nokkuð skýr að sumu leyti. Hún var t.d. skýr varðandi afstöðu manna til kirkjuskipaninnar. Tökum annað dæmi, afstaðan til þjóðareignar á auðlindum. Ég hygg að ekki sé mikill ágreiningur um að menn vilja hafa ákvæði í þessa veru inni í stjórnarskránni, en þegar kemur að því að útfæra það vandast hins vegar málið. Sú útfærsla sem við sjáum hérna í þessu frumvarpi er að mínu mati algjörlega ónothæf. Ég geri ráð fyrir því að einhverjir aðrir muni halda því fram að með skírskotun til þjóðaratkvæðagreiðslunnar sé einmitt búið að uppfylla þann vilja sem hafi komið fram þar.

Það sem ég er einfaldlega að segja er þetta: Við erum komin alveg ótrúlega stutt. Þrátt fyrir alla þessa vinnu, þrátt fyrir að menn þykist hafa sótt umboð sitt til þjóðarinnar með margvíslegum hætti erum við komin ótrúlega stutt, sem við sjáum af því að útfærslan, kjötið á beinunum, er ekki til staðar í svo mörgum veigamiklum atriðum.