141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:18]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt kjarni málsins að við ákváðum á hverjum tíma að beita tilteknum aðferðum í ferlinu til að ná fram næsta áfanga. Það var ákveðið að kalla eftir þjóðfundi með þeim hætti sem það var gert. Það mátti alveg örugglega gera þetta einhvern veginn öðruvísi, eins og prófessorinn sem vísað var í nefndi, ég geri alls ekki lítið úr því. Kannski var það jafngóð aðferð, kannski var það betri aðferð, ég veit það ekki, en við ákváðum á sínum tíma að tiltekinn þáttur í ferlinu yrði viðhafður. Þjóðfundurinn, úrvinnslan úr honum, kosningin til stjórnlagaþingsins o.s.frv. Ég held að summa alls þess sem við ákváðum að ferlið innihéldi hafi skilað okkur þeirri niðurstöðu sem var borin fyrir þjóðina 20. október síðastliðinn. Eins og ég nefndi áðan þótti mér verða algjör þáttaskil í málinu þegar þjóðin var spurð beint að því hvort tillögur stjórnlagaráðsins ættu að liggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá eða ekki. Svarið var svo afdráttarlaust og yfirgnæfandi já. Síðan voru tiltekin stór álitaefni lögð beint fyrir eins og ég nefndi áðan með kirkjuskipan. Þar var ákveðið að halda henni í því horfi sem hún er í dag, það var mjög klár niðurstaða og skýr líka.

Margt mátti örugglega gera öðruvísi á flestum stigum ferilsins, en við komumst alltaf að tiltekinni niðurstöðu á hverjum tíma. Ég held að hún hafi alltaf verið farsæl, alltaf verið heppileg, í sjálfu sér alltaf verið rétt, þótt alltaf sé hægt að velta því upp eftir á hvort við hefðum getað haldið öðruvísi á þessu með skoðanakönnun í stað þjóðfundar. Ég bara veit það ekki. Ég held að það komi alveg til álita, en við gerðum þetta svona þá. Niðurstaðan var viðunandi. Hér erum við stödd núna með fullbúið og þroskað mál í höndunum sem Alþingi er með núna á lokasprettinum.