141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki get ég tekið undir með hv. þingmanni að þetta sé fullbúið og þroskað mál. Mér finnst þetta vera mál sem við erum komin ótrúlega stutt með. Ég tók áðan dæmið um auðlindaákvæðið. Nú ætla ég að taka annað dæmi sem snertir það málasvið sem hv. þingmaður var að fara yfir, það er 15. gr. varðandi upplýsingarétt. Mjög alvarlegar athugasemdir hafa komið fram um þá grein, t.d. frá umboðsmanni Alþingis þar sem hann bendir á að fyrirmynd þess fyrirkomulags sem verið er að reyna að teikna inn í stjórnarskrána sé sótt frá Svíþjóð. Þar hafi meðferð þessara mála og réttur almennings til aðgangs að gögnum mótast á mjög löngum tíma, sem sé eins konar forsenda fyrir því að hægt sé að innleiða þetta ef menn vilja gera það með þeim hætti sem ákvæðið kveður á um.

Björg Thorarensen prófessor bendir á að þetta ákvæði leggi skyldur á stjórnvöld sem þau geti ekki uppfyllt við núverandi aðstæður. Það er líka vakin athygli á því að til að mynda hin nýsamþykktu upplýsingalög ganga miklu skemur en þetta ákvæði mælir í raun og veru fyrir um. Þarna erum við enn á ný komin með ákvæði sem menn þurfa ekki endilega að vera mjög ósammála um í aðalatriðum, en er óframkvæmanlegt við þær aðstæður sem við búum við í dag. Við erum ekki búin að undirbyggja það og það kallar á ákveðna hefð, reynslu og vinnu, sem ekki hefur farið fram.

Það er þetta, virðulegi forseti, sem ég er að vísa til þegar ég segi að málið sé komið svo ótrúlega stutt. Þrátt fyrir að menn séu að vísa í þjóðfundinn, þjóðaratkvæðagreiðsluna og stjórnlagaráðsvinnuna þá erum við komin alveg ótrúlega stutt í þessu mikla máli.